Körfubolti

Hætti við Úkraínudvöl og lendir aftur í Keflavík

Sindri Sverrisson skrifar
CJ Burks fór með Keflavík í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.
CJ Burks fór með Keflavík í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð. vísir/Bára Dröfn

Keflavík endurheimtir á næstu dögum Bandaríkjamanninn CJ Burks sem mun spila með liðinu í stað Brians Halums í vetur.

Keflavík samdi við Halums fyrr í þessum mánuði en eftir stutta dvöl á Íslandi ákvað hann að halda heim á leið af persónulegum ástæðum, samkvæmt tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Keflavíkur.

Burks hafði samið við úkraínska félagið Khimik í sumar en nú er ljóst að hann mun í staðinn leika á ný fyrir Keflavík.

Á síðustu leiktíð skoraði Burks að meðaltali 18,2 stig í leik fyrir Keflavík, tók 5,5 fráköst og gaf 3,6 stoðsendingar.

Keflvíkingar voru Kanalausir þegar þeir féllu úr leik í 8-liða úrslitum VÍS-bikarsins með tapi gegn Tindastóli fyrir tíu dögum. Þeir leika fyrsta heimaleik sinn á tímabilinu í kvöld þegar þeir mæta ÍR í æfingaleik klukkan 19, í beinni útsendingu á KefTV.

Fyrsti leikur silfurliðsins í Dominos-deildinni er svo á Ísafirði 7. október þegar Keflavík mætir þar nýliðum Vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×