Skoðun

Gefum milljarða!

Friðjón Friðjónsson skrifar

Við Íslendingar erum heppin þjóð, við unnum í lotteríi lífsins að því leyti að hér eru miklar auðlindir og mörg tækifæri. Það mætti jafnvel segja að við búum í landi tækifæranna. Okkur hefur auðnast að nýta hagsæld okkar til að mennta okkur og verða þannig enn betri í að takast á við þau verkefni sem fyrir okkur liggja. Eins hefur okkur tekist að fara í gegnum heimsfaraldur með hætti svo vitnað er alþjóðlega um heilbrigðiskerfið okkar og samtakamátt. Nánast öll sem mega eru bólusett og við erum í öfundsverðri stöðu.

Covax, samstarf þjóða í bólusetningum, sendi nýverið frá sér viðvörun þar sem fram kom að um 500 milljón færri skömmtum af bóluefnum yrði dreift á vettvangi samstarfsins en áætlanir stóðu til. Það er töluverð breyting því annað var upp á teningnum fyrir aðeins þremur mánuðum. Þótt við séum heppin þá er staðan víða alvarleg og því full ástæða fyrir okkur að leggja meira af mörkum.

Því er það gleðiefni að sagt er frá því á heimasíðu Covax í gær að fyrstu gjafaskammtarnir frá Íslandi hafi borist til Fílabeinsstrandarinnar um sl. helgi, 35.700 skammtar. Þar er Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra þakkaður stuðningurinn, sagt er frá því að heildargjöf Íslands sé 125.726 skammtar og að ríkisstjórnin hafi til viðbótar gefið 750 milljón krónur í Covax samstarfið. Þessi gjöf er vitnisburður um hve góð staðan er á Íslandi og að við getum auðveldlega gert meira.

Bandaríkin hafa þegar gefið 110 milljón skammta sem er aðeins lægra hlutfall en við Íslendingar höfum gefið miðað við mannfjölda. Bandaríkjaforseti hefur þó gert samninga um 500 milljón skammta til viðbótar og ætlar að kaupa annað eins til að dreifa til fátækari þjóða.

Við erum rík þjóð, staðan í heimsfaraldrinum er með besta móti hér á landi, við erum aflögufær vegna þess að við höfum verið skynsöm í fjármálum, skynsöm í viðbrögðum við faraldrinum og skynsöm í heilbrigðismálum. Við eigum að stíga fram og sýna að við getum tekið þátt - og gefa að lágmarki milljón bólefnisskammta inn í Covax samstarfið. Það kostar milljarða en við höfum efni á því af því að landinu hefur verið vel stjórnað.

Höfundur skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×