Erlent

Þing­húsið í Was­hington: Herða öryggi fyrir sam­komu til stuðnings róstur­seggja

Þorgils Jónsson skrifar
Ráðgert er að setja upp girðingar í kringum þinghúsið í Washington, í aðdraganda mótmæla sem fara eiga fram um næstu helgi.
Ráðgert er að setja upp girðingar í kringum þinghúsið í Washington, í aðdraganda mótmæla sem fara eiga fram um næstu helgi.

Áformað er að herða á öryggisráðstöfunum í kringum þinghúsið í Washingtonborg fyrir næstu helgi þegar hinir ýmsu öfgahópar hliðhollir Donald Trumps fyrrverandi forseta hyggjast koma saman.

Tveggja metra háar girðingar verða að öllum líkindum reistar í kringum þinghúsið auk þess sem lögreglufólki verður heimilað að beita vopnavaldi til að verja þingmenn og starfsfólk.

Þessi samkoma er skipulögð til stuðnings þeim rúmlega 600 einstaklingum sem sæta ákærum fyrir framferði sitt í óeirðunum við þinghúsið hinn 6. janúar síðastliðins. Er þess krafist að fólkinu verði sleppt úr haldi.

Þá söfnuðust þúsundir stuðningsmanna Trumps saman til að þrýsta á repúblikana á þingi og Mike Pence varaforseta að staðfesta ekki sigur Joe Bidens í forsetakosningunum. Eftir fundinn hélt mannfjöldinn fylktu liði að þinghúsinu þar sem ástandið stigmagnaðist og stór hópur mótmælenda óð yfir öryggistálma og réðist til inngöngu í þinghúsið.

Í róstunum slösuðust fjölmargir lögreglumenn og einn mótmælandi var skotinn til bana. Degi síðar lést einn lögreglumaður, en síðan þá hafa fjórir lögreglumenn svipt sig lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×