Viðskipti innlent

Bónus opnar þriðju verslunina á Akur­eyri næsta vor

Atli Ísleifsson skrifar
Bónus rekur í dag tvær verslanir á Akureyri, við Langholt og Kjarnagötu.
Bónus rekur í dag tvær verslanir á Akureyri, við Langholt og Kjarnagötu. Hagar

Bónus hyggst opna þriðju matvöruverslunina á Akureyri næsta vor. Verslunin mun opna í verslunarkjarnanum að Norðurtorgi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum og segir að samningar þessa efnis hafi verið undirritaðir þar um. Verslunin verður ríflega tvö þúsund fermetrar að stærð og staðsett við hlið verslana Rúmfatalagersins og ILVA sem þegar eru á Norðurtorgi.

Bónus rekur í dag tvær verslanir á Akureyri, við Langholt og Kjarnagötu. Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að engar ákvarðanir hafi hafi verið teknar um hvort til standi að loka versluninni við Langholt þegar nýja verslunin opnar, en um tveggja mínútna akstur er milli verslunarinnar við Langholt og Norðurtorgs.

Framtíðarstaðsetning

Haft er eftir Guðmundi Marteinssyni, framkvæmdastjóra Bónus, að hann sé afar ánægður með að samningar hafi náðst um verslun á Norðurtorgi sem litið sé á sem framtíðarstaðsetningu í verslun á Norðurlandi.

„Með versluninni munum við efla enn frekar þjónustu við íbúa Akureyrar og nærsveita og um leið þess fjölda ferðamanna sem sækir svæðið heim. Á Norðurtorgi eru fyrir öflugar verslanir og opnun Bónus mun styrkja verslunarkjarnann enn frekar þar sem að Bónus býður sama lága verðið um allt land og fjölbreytt vöruúrval. Mjög gott aðgengi verður að versluninni, með fjölda bílastæða, hreinlætisaðstöðu og rafhleðslustöðvum. Í næsta nágrenni er framtíðaruppbyggingarsvæði fyrir íbúðabyggð og því teljum við staðsetninguna afar góða til framtíðar litið,“ er haft eftir Guðmundi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×