Sport

Átján ára boxari lést fimm dögum eftir rothögg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Charlie Edwards Media Workout
getty/George Wood

Átján ára hnefaleikakona frá Mexíkó, Jeanette Zacarias Zapata, er látin eftir rothögg í bardaga gegn Marie Pier Houle í Montreal á laugardaginn.

Undir lok fjórðu lotu króaði Houle Zapata af úti í horni og náði nokkrum þungum höggum. Zapata kipptist til og þjálfari og eiginmaður hennar, Jovanni Martínez, lagði hana niður í hringnum.

Hún lá þar í nokkrar mínútur áður en hún var flutt á sjúkrahús. Hún komst ekki til meðvitundar og lést í gær. Skipuleggjandinn Yvon Michel greindi frá þessu á Twitter.

Houle tjáði sig um andlát Zapatas og sagðist vera miður sín. „Ég er leið og í áfalli vegna frétta af fráfalli frábærrar íþróttakonu. Ég votta fjölskyldu hennar og eiginmanni, Jovanni Martinez, samúð mína.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×