Fótbolti

Þjálfari Noregs vill nýja ríkis­stjórn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ståle Solbakken á hliðarlínunni er Noregur gerði 1-1 jafntefli við Holland.
Ståle Solbakken á hliðarlínunni er Noregur gerði 1-1 jafntefli við Holland. Andre Weening/Getty Images

Noregur gerði 1-1 jafntefli við Holland í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu á dögunum. Ståle Solbakken, þjálfari Norðmanna, var allt annað en sáttur með hversu fáir áhorfendur fengu að vera á leiknum.

Aðeins sjö þúsund fengu að sjá leik Noregs og Hollands á Ullevaal-vellinum í Ósló, höfuðborg Noregs í vikunni. Solbakken telur það ekki vera sínum mönnum í hag að spila á hálftómum heimavelli en þurfa svo að fara ytra og mæta liðum þar sem setið verður í hverju sæti.

„Í dag spiluðum við fyrir framan sjö þúsund magnaða áhorfendur. Þau stóðu sig með prýði en andrúmsloftið hefði hins vegar getað verið stórfenglegt. Við munum spila fyrir framan 60 þúsund manns í Amsterdam og stöppuðum velli í Istanbúl. Við getum ekki verið að eyða tíma í að hugsa um það. Eina sem við getum gert er að kjósa í alþingiskosningunum,“ sagði hinn 53 ára gamli Solbakken á blaðamannafundi að leik loknum.

„Það er hárrétt,“ sagði Solbakken aðspurður hvort hann vildi sum sé fá nýja ríkisstjórn fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi þann 11. október næstkomandi.

Á meðan Noregur lék fyrir framan sjö þúsund áhorfendur í Ósló voru 35 þúsund áhorfendur á Parken í Kaupmannahöfn þar sem Danir unnu 2-0 sigur á Skotum í fyrsta leik sínum síðan að Evrópumótinu lauk í sumar.

Ståle Solbakken hefur stýrt liði Noregs frá því á síðasta ári þegar Lars Lagerbäck hætti sem þjálfari liðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×