Innlent

Komin aftur til Ís­lands frá Afgan­istan: „Fram­tíðin er dökk“

Atli Ísleifsson og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Fjölskyldan dvelur nú á sóttkvíarhóteli í Þórunnartúni.
Fjölskyldan dvelur nú á sóttkvíarhóteli í Þórunnartúni.

„Framtíðin er dökk. Hún er ekki björt, en við sjáum til hvað gerist,“ segir Fazal Omar sem flúði frá afgönsku höfuðborginni Kabúl með fjölskyldunni og kom til Íslands fyrr í vikunni.

Fazal ræddi við fréttastofu fyrir utan sóttkvíarhótel í Þórunnartúni í Reykjavík um tvöleytið í dag. Hann dvelur nú þar ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum.

Hann kom fyrst til Íslands árið 2001 þegar hann flúði frá Afganistan í kjölfar uppgangs talibana í landinu. Hann hefur starfað í Afganistan að friðaruppbyggingu fyrir samökin DHSA síðustu misserin.

Aðspurður um hvernig fjölskyldan hafi hagað málum eftir að talibanar lögðu Kabúl undir sig nú segir hann það hafa verið mjög erfitt. „Þegar þeir komu fórum við ekki út. Höfðum hljótt. Ég sagðist vinna að friðaruppbyggingu í landinu.“

Fazal segir fjölskylduna hafa fylgst með fréttum á meðan þau hafi verið í samskiptum við starfsmenn utanríkisráðuneytisins á meðan færis var beðið að komast úr landi. Hann hafi hafið vinnu við að komast úr landi í júlí og er hann mjög þakklátur starfsmönnum ráðuneytisins fyrir þeirra vinnu og aðstoð.

Fazal Omar fyrir utan sótthvíarhótel í Þórunnartúni í dag.Vísir/Sigurjón

Hann segir börnin að vissu leyti hrygg að hafa þurft að yfirgefa vini sína í Kabúl og það umhverfi sem þau þekkja. „En þegar þau sjá hvernig ástandið er þar þá róast þau. Þegar talibanarnir komu þá gátum við ekki sofið í tvær, þrjár nætur.“

Nánar verður rætt við Fazal Omar í kvöldfréttum Stöðvar 2 sem hefjast klukkan 18:30. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×