Golf

J. R. Smith fær leyfi til að keppa með skóla­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Náms-/íþróttamaðurinn J. R. Smith.
Náms-/íþróttamaðurinn J. R. Smith. Complex

J. R. Smith, fyrrum leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta, skráði sig nýverið í háskóla og ákvað að skrá sig í golflið skólans í leiðinni. Hann hefur nú fengið keppnisleyfi og mun því spila með skólaliðinu, NC A&T Aggies, á meðan námi stendur.

Vísir greindi frá því nýverið að hinn 35 ára gamli J. R. Smith – sem varð tvívegis NBA meistari – hafi ákveðið að setjast á skólabekk þar sem skórnir væru farnir upp í hillu. 

Ásamt því að stunda nám við A&T State-háskólann í Norður-Karólínu ákvað Smith að spila golf með skólaliðinu en Smith er einkar fær á golfvellinum.

Til þess þurfti hann að fá leyfi frá NCAA, National Collegiate Athletic Association. Það er nú komið.

„Þetta var mögulega einhver mesta spenna sem ég hef upplifað í dágóða stund. Ég vissi ekki hvernig þetta myndi fara, að geta kallað sjálfan mig náms-/íþróttamann er frábær tilfinning,“ sagði J. R. eftir að leyfið datt í hús.

J. R. Smith hætti í skóla aðeins 17 ára gamall til að elta drauminn og gerast atvinnumaður í körfubolta. Nú 18 árum síðar er hann loks kominn aftur á skólabekkinn og er spenntur fyrir komandi tímum þó þeir verði mjög krefjandi. 

Það á svo einfaldlega eftir að koma í ljós hvort Smith haldi sig við bækurnar eða ákveði að reyna fyrir sér sem atvinnumaður í golfi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×