Tíska og hönnun

Draumaferill Atla Freys hjá Hugo Boss, Prada og Hermès

Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Frosti Logason skrifa
Atli Freyr Sævarsson hefur starfað í þrjátíu ár í tískubransanum og þar af sem stjórnandi hjá nokkrum af stærstu tískuhúsum heims.
Atli Freyr Sævarsson hefur starfað í þrjátíu ár í tískubransanum og þar af sem stjórnandi hjá nokkrum af stærstu tískuhúsum heims. Ísland í dag

„Þetta hafa ekki eingöngu verið kampavínsboð og tískusýningar,“ segir Atli Freyr Sævarsson um feril sinn innan tískubransans. 

Atli Freyr Sævarsson hefur verið búsettur erlendis stærsta hluta ævi sinnar vegna vinnu. Hann ólst upp í Reykjavík og eftir að hafa starfað í tískuvöruverslun foreldra sinna, hjá Sævari Karli í Bankastræti í nokkur ár bauðst honum staða hjá alþjóðlega stórfyrirtækinu Hugo Boss í Hamburg í Þýskalandi.

„Ég unni mér vel strax en var alltaf áfram í mjög góðu sambandi við Ísland. Ég bara ílengdist í raun og veru.“

Atli Freyr fluttist út tvítugur að aldri og ætlaði fyrst bara að vera í sex mánuði en hlutirnir æxluðust þannig að hann hefur síðastliðinn þrjátíu ár búið og starfað í Evrópu þar sem hann hefur unnið hjá mörgum af stærstu fyrirtækjum heims á sviði alþjóðlegrar tísku. Frosti Logason hitti Atla Frey þegar hann var í heimsókn á Íslandi um daginn og fengum hann til að segja okkur frá ferli sínum og hvernig það var að fara í raun beint frá Verslunarskólanum í að starfa fyrir flottu stórfyrirtæki eins og Hugo Boss.

„Það voru bara tækifæri sem birtust og ég elti það, það voru mjög spennandi verkefni sem ég komst í.“

Snýst um að finna það rétta

Hann hefur í gegnum tíðina verið í mörgum áhugaverðum verkefnum og það má segja að hann hafi strax í upphafi kastað sér beint í djúpu laugina þegar hann tók þátt í að koma á fót einni alvinsælustu fatalínu Hugo Boss í seinni tíð. Auk þess að starfa til langs tíma hjá Hugo Boss, Prada og Hermès tók Atli sig líka til og menntaði sig í heimspeki í Þýskalandi. Hann lauk þar meistaragráðu frá Háskólanum í Dusseldorf en þegar verkefnin urðu stærri og Atli var farinn að gegna áhrifameiri stjórnunarstöðum innan tískubransans bætti hann líka við sig MBA gráðu frá Háskólanum í Mannheim.

„Þetta er á margan hátt draumaferill. Ég hef alltaf unað mér vel og hef alltaf verið lengi á hverjum stað. Ég hef fundið stuðning og fundið möguleika til að nota mína kunnáttu og mennta mig meira.“

Við sem heima sitjum og horfum utanfrá tengjum tískubransann að miklu leiti við mikinn glamúr, tískusýningar og súpermódel. Líf hans hefur samt ekki verið ein stór veisla með öllu ríka og fræga fólkinu þó að hann þekki vel að sitja á fremsta bekk á tískuviðburðum, flakka um tískuvikur í stórborgum og mæta í kampavínsboð.

„Þetta snýst um að finna það rétta fyrir kúnnana okkar og kaupa inn langt á undan sölutímanum.

Hugurinn er þó oftast við reksturinn og næstu skref þó að það fylgi starfinu að hitta fólk og mæta á viðburði.“

Já fötin skapa manninn og allt það en hvað sem því líður hefur Atli á öllum þessum árum starfað náið með stjórnendum af mörgum stærstu tískumerkjum heims sem hann segir að séu eins og allar aðrar manneskjur, mismunandi í viðkynningu og umgengni.

Atli starfaði fyrir franska lúxusvörurisann Hermès til margra ára og var þá sölustjóri fyrir merkið í allri Norður Evrópu. Þá var hann einnig stjórnandi hjá Dorothee Schumacher og leiddi markaðssetningu þess í nokkur ár, þannig að Atli hefur komið víða við. Hann segir tískuheiminn hafa þróast mikið og breyst á þeim þrjátíu árum síðan hann byrjaði að starfa í honum og segir hann að stærsta breytingin sé í rauninni sú hve bransinn sé orðinn miklu meira fjármálavæddari en hann var áður.

Atli hefur á undanförnum árum breytt örlítið um kúrs á sínum ferli og er nú farinn að sinna meiri kennslu og þjálfun annarra stjórnanda. Hann lærði markþjálfun og stofnaði sitt eigið fyrirtæki á því sviði auk þess sem hann hóf nýverið störf við hina mjög svo virtu AMD stofnun í Dusseldorf. AMD stendur fyrir Akademíu tísku og hönnunar en þar kennir hann námskeið á meistarastigi í stjórnun smásölu innan tískubransans.


Tengdar fréttir

Útieldhús, bar og draumagarður í Hafnarfirði

Útieldhús hafa þvílíkt verið að slá í gegn að undanförnu. Í ævintýralegum garði í Hafnarfirði hefur garðhönnuðurinn Eva Ósk Guðmundsdóttir, hannað og smíðað bæði bar og eldhús sem er eins og eyja og algjört augnakonfekt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×