Erlent

Kathy Hochul ríkisstjóri New York fyrst kvenna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hochul sver embættiseiðinn.
Hochul sver embættiseiðinn. AP/Hans Pennink

Kathy Hochul sór embættiseið í nótt og varð þar með fyrst kvenna til að verða ríkisstjóri New York. Hún tekur við af Andrew Cuomo, sem sagði af sér í kjölfar fjölda ásakana um kynferðisbrot.

Eftir athöfnina í nótt þakkaði Hochul þeim konum sem vörðuðu veginn og sagðist ekki myndu bregðast íbúum ríkisins. Hún hefur þegar tilkynnt að hún hyggist sækjast eftir endurkjöri í næstu kosningum.

Athygli vekur að mörg æðstu embætti New York-ríkis eru nú á höndum kvenna; Janet DiFiore er æðist dómari ríkisins, og sú sem fór fyrir athöfninni í nótt, Andrea Stewart-Cousins fer fyrir þingmeirihlutanum og Letitia James er ríkissaksóknari.

Hochul bíða stór verkefni, ekki síst að endurvekja traust og samstöðu í kjölfar átakasamrar stjórnartíðar Cuomo. Þá þarf hún að ákveða hvernig yfirvöld eiga að bregðast við uppgangi kórónuveirunnar en stefna forvera hennar í þeim málum var oft umdeild.

Áður en hann lét af embætti sagði Cuomo ófarir sínar pólitísk bellibrögð og fjölmiðlasirkús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×