Skoðun

Hvað dvelur hrað­prófin?

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Ólíkt hafast þau að, stjórnvöld á Íslandi og í Danmörku, þegar kemur að því að greiða leið fólks í gegnum Covid-19 frumskóginn, til að tryggja að við getum lifað hér sem eðlilegustu lífi á ný. Á meðan íslensk stjórnvöld þvælast fyrir með reglugerð sem bannar notkun Covid-sjálfsprófa þá hvetja dönsk stjórnvöld til notkunar slíkra prófa hvenær sem fólk og fyrirtæki þurfa og vilja.

Að auki bjóða dönsk stjórnvöld víða upp á Covid-hraðpróf fólki að kostnaðarlausu, hvort sem það finnur fyrir einkennum eða ekki og hvort sem um heimamenn eða ferðamenn er að ræða. Fólk sem ekki getur nýtt sér þessi fríu próf getur keypt þau víða á stöðum sem betur henta. Þetta fjölgar þeim sem komast snemma að því að þau séu smituð og dregur úr líkunum á því að þau smiti aðra. Að sama skapi einfaldar þetta ósmituðu fólki að halda sínu striki.

Fyrirkomulagið í fríu Covid-hraðprófunartjöldum danskra stjórnvalda minnir um margt á skipulagið góða í Laugardalshöll þegar við vorum ,,best í heimi í bólusetningum“. Nema þau eru auðvitað margfalt smærri í sniðum enda tjöldin víða. En hvað gerðist svo?

Í frétt RÚV í gærkvöldi kom fram að stjórnvöld sjái fyrir sér að hraðpróf verði í auknum mæli notuð til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Ef það markmið á að nást hlýtur að þurfa að auka aðgengi fólks að hraðprófunum, það segir sig sjálft. Annars vegar með því að koma upp prófunarstöðum þar sem fólki gefst kostur á taka hraðpróf sér að kostnaðarlausu. Hins vegar með því að afnema óskiljanlegt bann við sjálfsprófum. Þessi próf eru ekki ætluð fólki með einkenni heldur eru fyrst og fremst notuð sem smitvörn. Þau skapa öryggi og draga úr smithættu svo að við getum fetað okkur aftur í áttina að eðlilegu lífi. Svo að við getum lifað með veirunni.

Höfundur er þingmaður og oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×