Fótbolti

Koma mörgum á óvart með því hvaða leikmaður fær tíuna hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho hefur ekki fundið sig hjá Barcelona en gæti mögulega notið sín betur án Messi.
Philippe Coutinho hefur ekki fundið sig hjá Barcelona en gæti mögulega notið sín betur án Messi. EPA-EFE/Andreu Dalmau

Það lítur út fyrir að það sé komin ný tía í lið Barcelona því spænska félagið hefur ákveðið að leyfa leikmanni að spila í treyjunni sem Lionel Messi hafði spilað svo lengi í.

Philippe Coutinho hefur verið orðaður við flest stórlið á Englandi í langan tíma en það lítur út fyrir að hann eigi að fá alvöru hlutverk hjá Ronald Koeman þjálfara.

Í stað þess að fara frá félaginu þá fær hann mögulega eftirsóttustu treyjuna í liðinu.

Margir héldu eflaust að það myndi enginn spila í tíunni hjá Barcelona á þessu fyrsta tímabili án Messi og sumir gengu svo langt að leggja það til að treyjan færi upp í rjáfur og að enginn fengi að spila aftur í henni.

Barcelona menn virðast hins vegar hafa verið fljótir að finna næstu tíu í liðinu. Mundo Deportivo slær því upp að Philippe Coutinho verði boðið að spila í treyju númer tíu.

Blaðamaður Mundo Deportivo hefur þær heimildir að Koeman ætli að gefa Coutinho eitt tækifæri í viðbót með því að gefa honum stórt hlutverk í vetur. Hér fyrir neðan má sjá forsíðu blaðsins í morgun.

Coutinho hefur spilað bæði í treyjum númer fjórtán og sjö síðan að hann kom frá Liverpool fyrir risaupphæð í ársbyrjun 2018. Coutinho var aftur á móti í tíunni hjá bæði Liverpool og Bayern München.

Tían er víst eina lausa númerið hjá Barcelona fyrir utan treyju númer 25 sem er ætluð fyrir markverði. Coutinho var í fjórtán á síðustu leiktíð en það númer fékk hinn ungi Rey Manaj á dögunum.

Coutinho hefur spilað 90 leiki fyrir Barcelona í öllum keppnum og skorað í þeim 24 mörk. Hann vann þrennuna með Bayern þegar hann var lánaður þangað 2019-20 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×