Fótbolti

Barca skuldar Messi 52 milljónir evra

Smári Jökull Jónsson skrifar
Messi var kynntur hjá PSG í vikunni. Hann fær himinhá laun þar en á dágóða summu inni hjá fyrrverandi vinnuveitendum sínum á Spáni.
Messi var kynntur hjá PSG í vikunni. Hann fær himinhá laun þar en á dágóða summu inni hjá fyrrverandi vinnuveitendum sínum á Spáni. Vísir/Getty

Lionel Messi virðist ætla að halda áfram að hafa áhrif á fjárhaginn hjá FC Barcelona þrátt fyrir að hafa yfirgefið félagið. Hann á inni milljarða í ógreidd laun hjá spænsku risunum.

Samkvæmt frétt hins katalónska dagblaðs Sport gerði FC Barcelona samkomulag við nokkra af launahæstu leikmönnum sínum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar og samdi því við Messi og fleiri leikmenn að geyma hluta af launagreiðslum til að hjálpa félaginu í erfiðleikum sínum.

Samkvæmt fréttinni á Messi alls inni 52 milljónir evra hjá Barca en það eru meira en sjö milljarðar íslenskra króna. Þá tekur Sport það einnig fram að lögfræðingar Messi séu á fullu að semja við Barcelona um greiðsluna en félagið hefur til loka árs 2022 til að gera upp skuldina.

Samkomulagið var gert í tíð fyrrum forseta Barcelona, Josep Maria Bartomeu, en hann hrökklaðist frá völdum í lok síðasta árs. Við tók fyrrum forsetinn Joan Laporta en að hans sögn var skuldastaða félagsins vanmetin um meira en 200 milljónir evra.


Tengdar fréttir

Messi mun spila í treyju númer 30 hjá PSG

Lionel Messi gekk í raðir franska stórliðsins París-Saint Germain eins og hefur eflaust ekki farið framhjá einu einasta mannsbarni. Messi hefur feril sinn með PSG með sama númer á bakinu og hann hóf ferilinn hjá Barcelona á sínum tíma, 30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×