Innlent

For­stjóri Barna­verndar­stofu færir sig um set

Atli Ísleifsson skrifar
Heiða Björg Pálmadóttir.
Heiða Björg Pálmadóttir. Heilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Heiðu Björgu Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu, í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu innviða heilbrigðisþjónustu í ráðuneytinu.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að ráðgefandi hæfnisnefnd um skipun í embættið hafi metið Heiðu mjög vel hæfa til að gegna embættinu. Skipað verður í embættið til fimm ára.

„Heiða Björg lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og hlaut leyfi til starfa sem héraðsdómslögmaður árið 2008 og leggur nú stund á doktorsnám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún hefur gegnt embætti forstjóri Barnaverndarstofu frá árinu 2018. Áður starfaði hún um árabil sem yfirlögfræðingur á sömu stofnun. Hún hefur starfað sem stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík og við félagsvísindasvið Háskóla Íslands, starfaði sem lögfræðingur hjá Umboðsmanni alþingis 2006-2008 og gegndi lögfræðistörfum á sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar ríkisins 2005-2008.

Ráðgefandi nefnd skipuð samkvæmt 19. gr. laga 115/2011 um Stjórnarráð Íslands lagði mat á hæfni umsækjenda. Í umsögn nefndarinnar segir að Heiða Björg hafi afburða þekkingu á sviði opinberrar stjórnsýslu. Þá hafi hún sem forstjóri Barnaverndarstofu og yfirlögfræðingur á stofnuninni þar sem starfa rúmlega 100 starfsmenn við flókna og viðkvæma starfsemi, öðlast góða stjórnunarreynslu, auk þekkingar og reynslu í opinberum fjármálum og rekstri. Jafnframt er bent á að hún hafi borið ábyrgð á og stýrt stefnumótun stofnunarinnar á tímum mikilla breytinga. Sem fyrr segir mat nefndin Heiðu Björgu mjög vel hæfa til embætti skrifstofustjóra á skrifstofu innviða heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×