Erlent

Einn helsti sérfræðingur Rússlands í þróun hljóðfrárra loftfara handtekinn fyrir landráð

Samúel Karl Ólason skrifar
Heimsveldin hafa mikinn áhuga á þróun hljóðfrárra eldflauga og flugvéla um þessar mundir.
Heimsveldin hafa mikinn áhuga á þróun hljóðfrárra eldflauga og flugvéla um þessar mundir. EPA/ALEXEI DRUZHININ/SPUTNIK

Yfirvöld í Rússlandi handtóku í gær einn helsta sérfræðing landsins í þróun hljóðfrárra loftfara. Hann var úrskurðaður í tveggja mánaða gæsluvarðhald vegna gruns um að hann hafi framið landráð.

Hinn 73 ára gamli Alexander Kuranov stýrði Hypersonic Systems Research Facility í St. Pétursborg en var handtekinn í Moskvu í gær. Í frétt Guardian segir að Kuranov sé grunaður um að hafa afhent erlendum manni leynileg gögn.

Kuranov er sagður vera sérfræðingur í þróun hljóðfrárra flugvéla og hefur unnið að þeirri þróun frá tímum Sovétríkjanna.

Sjá einnig: Skutu hljóðfrárri eldflaug á tíu þúsund kílómetra hraða

Það að vera hljóðfrá þýðir að flugför geti flogið á mörgföldum hljóðhraða. Rússar hafa staðið framarlega í þróun hljóðfrárra eldflauga en nokkrir vísinda- og fræði menn í þeim geira hafa verið ákærðir fyrir landráð á undanförnum árum.

Sjá einnig: Rússneskur vísindamaður ákærður fyrir landráð

Í frétt Moscow Times er vitnað í nokkrar fréttaveitur rússneska ríkisins varðandi það að Kuranov sé grunaður um að hafa útvegað erlendum aðila ríkisleyndarmál og sömuleiðis sé hann sagður hafa fundað með og unnið með fleiri erlendum aðilum.

Ein fréttaveitan segir Bandaríkin og Kína hafa sýnt sérlega mikinn áhuga á störfum Kuranov og tækninni sem hann vann að.

Verði Kuranov fundinn sekur um landráð gæti hann verið dæmdur í allt að tuttugu ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×