Viðskipti innlent

Spá 4,2 prósent verðbólgu í ágúst

Eiður Þór Árnason skrifar
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að verðbólga standi í stað fram í nóvember.
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að verðbólga standi í stað fram í nóvember. Vísir/Vilhelm

Hagfræðideild Landsbankans spáir 4,2 prósent verðbólgu í ágúst en tólf mánaða verðbólga mældist 4,3 prósent í júlí.

Mest áhrif til hækkunar milli mánaða höfðu þá flugfargjöld til útlanda, kostnaður við að búa í eigin húsnæði eða reiknuð húsaleiga auk bensíns og dísilolíu. Mest áhrif til lækkunar hafði annars vegar föt og skór og hins vegar matur og drykkur.

Hagfræðideild Landsbankans hafði áður spáð því að 4,4 prósent verðbólga myndi mælast í júlí en að sögn deildarinnar er verð á mat og drykk sá liður sem helst skýrði mismuninn á spá hennar og endanlegri tölu.

Verðbólga verði 4,2 prósent í nóvember

Deildin gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki svo um á bilinu 0,22 til 0,39 prósent í september, október og nóvember og að tólf mánaða verðbólga verði um 4,2 prósent í nóvember.

Húsnæðisverð er einn af lykilóvissuþáttunum í verðbólgu á næstunni.

„Þær miklu hækkanir sem urðu á húsnæði í vor komu flestum spáaðilum í opna skjöldu og höfðu þær töluverð áhrif á verðbólgu. Verðhækkanir síðustu mánaða hafa verið mun minni og meira í takti við sögulegt meðaltal. Við gerum ráð fyrir að þessar verðhækkanir minnki á næstu mánuðum,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Verði þær hærri en hagfræðideildin spái muni það eðlilega koma fram í hærri verðbólgutölum á næstunni. Næsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans verður kynnt 25. ágúst. Í maí hækkaði bankinn vexti um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru nú eitt prósent.


Tengdar fréttir

Verðbólga mælist 4,3 prósent

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,3% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,4%. Ársverðbólga mælist því 4,3% í júlí og stendur í stað milli mánaða. Verðbólga mældist 4,4% í maí og 4,6% í apríl en þá hafði hún ekki verið hærri í átta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×