Erlent

Náðu tveimur lykilborgum í kvöld

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sókn talibana heldur áfram. Þeir ráða nú yfir tveimur af þremur stærstu borgum landsins. 
Sókn talibana heldur áfram. Þeir ráða nú yfir tveimur af þremur stærstu borgum landsins.  EPA/JALIL REZAYEE

Talibanar her­tóku í kvöld tvær stórar borgir í Afgan­istan, þær næst­stærstu á eftir höfuð­borginni Kabul. Her­lið talibana þrengir stöðugt að höfuð­borginni og hefur nú náð yfir­ráðum í 12 af 34 héraðs­höfuð­borgum landsins á innan við viku.

Þær tvær sem þeir náðu í kvöld, Kandahar og Herat, eru þær stærstu sem talibanar hafa náð á sitt vald hingað til í stríði sínu við stjórnar­her Afgan­istan. Til við­bótar náðu þeir borginni Ghazni á sitt vald í morgun, sem AP frétta­veitan segir að sé afar mikil­væg her­fræði­lega, því hún sker á aðal­leið stjórnar­hersins milli höfuð­borgarinnar og suður­héraða landsins.

Vísir fjallaði ítarlega um stríð talibana og stjórnarhersins í morgun:



Sækja starfsmenn sendiráða

Bæði bresk og banda­rísk stjórn­völd hafa á­kveðið að senda her­lið til höfuð­borgarinnar til að að­stoða starfs­fólk sendi­ráða sinna við að yfir­gefa landið. Um sex hundruð her­menn fara í leið­angurinn frá Bret­landi en um tvö þúsund frá Banda­ríkjunum, sam­kvæmt frétt The Guar­dian.

Þrátt fyrir þetta segja er­lendir miðlar að enn sem komið er eigi af­ganski herinn ekki í hættu á að missa Kabul. Talibanar hafa þó þrengt veru­lega að borginni í nýrri sókn sem þeir hófu í vikunni en þeir ráða nú yfir meira en tveimur þriðju hluta alls land­svæðis Afgan­istan.

Ríkis­stjórnin á að hafa boðið talibönum að ganga að sam­komu­lagi í dag sem myndi felast í því að þeir myndu deila völdum með ríkis­stjórn Ashraf Ghani, for­seta Afgan­istans, og hætta á­tökunum.

Stjórnendur annarrar borgar komust undan

Borgin Herat féll í hendur talibana í kvöld eftir linnu­lausar á­rásir þeirra í tvær vikur. Þeir börðust þar aðal­lega við her­lið stríðs­herrans Is­ma­il Khans, sem styður ríkis­stjórnina, og mætti í borgina til að að­stoða við varnir hennar. Ekki er vitað hvað varð um hann eftir að borgin féll, þegar þetta er skrifað.

Sam­kvæmt AP komust héraðs­stjóri Kandahar og aðrir stjórnar­menn borgarinnar úr borginni með flugi til Kabul áður en hún féll í hendur talibana í kvöld.

Hér má sjá kort frá AFP fréttaveitunni síðan í morgun sem sýnir þróun síðustu vikna:


Tengdar fréttir

Hver borgin fellur á fætur annarri

Vígamenn Talibana hafa hert tök sín á yfirráðasvæðum þeirra í norðurhluta Afganistans og virðast þeir vera að undirbúa sig fyrir það að stjórna svæðum þessum til lengri tíma. Stjórnarher landsins á undir högg að sækja en Bandaríkjamenn segja það á ábyrgð Afgana sjálfra að verjast Talibönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×