Fótbolti

Leonardo Bonucci: Samningur Messi hjá PSG hefur engin áhrif á framtíð Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mættust í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð með liðum Juventus og Barcelona.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mættust í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð með liðum Juventus og Barcelona. Getty/David Ramos

Leonardo Bonucci, liðsfélagi Cristiano Ronaldo hjá Juventus, hefur sína á skoðun á því hvort samningur Lionel Messi og Paris Saint Germain breyti einhverju varðandi framtíð Cristiano Ronaldo hjá ítalska félaginu.

Bonucci er nefnilega harður á því að nýjasta útspilið á ferli Messi hafi engin áhrif á framtíð Portúgalans.

Í sumarbyrjun leit út fyrir að Lionel Messi yrði áfram hjá Barcelona en að Cristiano Ronaldo væri líklegast á förum frá Juventus og þá mögulega til Paris Saint Germain liðsins. Nú í sumarlok hefur það öfuga gerst. Messi er búinn að skrifa undir samning við PSG en Ronaldo er enn hjká Juventus.

„Ég held að Cristiano hefði verið áfram hjá okkur þó að Messi hefði ekki farið til PSG,“ sagði landsliðsmiðvörðurinn Leonardo Bonucci við Gazzetta dello Sport í gær.

„Hann er okkur mikils virði og ég er viss um að á þessu ári, meira en undanfarin ár, muni hann hjálpa okkur að ná markmiðunum,“ sagði Bonucci.

Bonucci varð Evrópumeistari með ítalska landsliðinu í sumar en margir af meisturunum spila með Juventus liðinu.

Internazionale endaði níu ára sigurgöngu Juventus í ítölsku deildinni á síðustu leiktíð en Juve menn ætla sér að endurheimta titilinn.

„Við viljum koma með titilinn aftur heim og förum ekkert í felur með það. Þegar þú spilar með Juventus þá verður það að vera markmiðið alveg eins og gera góða hluti í Meistaradeildinni og keppa um titla á öllum vígstöðvum,“ sagði hinn 34 ára gamli Bonucci.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×