Erlent

Sjálfsvígum fjölgar í Kenía

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ein kenningin um fjölgun sjálfsvíga í Kenía gengur út á að um sé að kenna staðalímyndum um karlmennskuna.
Ein kenningin um fjölgun sjálfsvíga í Kenía gengur út á að um sé að kenna staðalímyndum um karlmennskuna.

Nærri 500 manns hafa tekið eigið líf í Kenía það sem af er ári en allt árið í fyrra nam fjöldinn 320. Yngsta manneskjan var níu ára og sú elsta 76 ára, samkvæmt heilbrigðisráðuneyti landsins.

George Kinoti, yfirmaður rannsóknarlögreglunnar, segir sjálfsvíg aldrei hafa verið jafn tíð og að bráðra aðgerða sé þörf. 

Mannréttindanefnd Kenía (KNCHR) sagði í fyrra að 1.442 Keníamenn hefðu gert tilraun til að svipta sig lífi á árunum 2015 til 2018. Raunar væri fjöldinn líklega meiri þar sem aðeins hluti tilvika væri tilkynntur.

Þá sögðust samtökin telja að aukninguna mætti meðal annars rekja til versnandi geðheilsu vegna slæmrar efnahagslegrar og félagslegrar stöðu. Samkvæmt Alþjóðabankanum fellur 6,1 Keníamaður af hverjum 100 þúsund fyrir eigin hendi.

Fjölmiðlamaðurinn Eddy Kimani, sem hefur sjálfur barist við geðsjúkdóma, segir keníska karlmenn glíma við þunglyndi, sem stundum leiði til sjálfsvígs, vegna ranghugmynda um það hvað það þýði að vera karlmaður.

„Karlmenn í Kenía eru almennt að taka eigið líf vegna rangra hugmynda um það hvað það er að vera maður. Afrískur maður situr á tilfinningum sínum því hann óttast viðbrögð samfélagsins, sem hefur kennt mönnum að þeir gráta ekki, að þeir eiga ekki að sýna tilfinningar sínar eða vera viðkvæmir.“

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×