Fótbolti

Misstu fyrst Messi og svo Aguero þar til í nóvember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio „Kun“ Aguero byrjar tímabilið á meiðslalistanum.
Sergio „Kun“ Aguero byrjar tímabilið á meiðslalistanum. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Aðeins nokkrum dögum eftir að Barcelona tilkynnti að Lionel Messi yrði ekki lengur hjá félaginu þá kom annað áfall.

Sergio Aguero gekk til liðs við Barcelona í sumar á frjálsri sölu frá Manchester City en hann missir af fyrstu tíu vikum tímabilsins.

Aguero var mikið meiddur síðustu árin sín hjá Manchester City og hann var ekki lengi að meiðast hjá Barca.

Hann meiddist á kálfa á æfingu á sunnudaginn og nú er ljóst að meiðslin eru alvarleg.

Hinn 33 ára gamli argentínski framherji gat ekki spilað sinn fyrsta leik í gær vegna meiðslanna en Barcelona vann þá 3-0 sigur á Juventus í árlega Joan Gamper bikarnum á Nývangi.

„Það er synd að hann skyldi meiðast og gat ekki spilað þrjátíu mínútur í Gamper leiknum. Þetta er áfall fyrir liðið því hann var að æfa á fullu og getur komið með gæði inn í framlínu liðsins,“ sagði Ronald Koeman, þjálfari Barcelona.

Fyrsti leikur Barcelona í spænsku deildinni verður á móti Real Sociedad á sunnudaginn. Þar verður auðvitað enginn Messi, enginn Sergio Aguero og þá eru þeir Ansu Fati og Ousmane Dembele líka fjarri góðu gamni.

Nú reynir því meira á Antoine Griezmann og danska landsliðsframherjann Martin Braithwaite. Memphis Depay er líka mættur og hefur spilað vel á undirbúningstímabilinu. Depay og Braithwaite voru báðir á skotskónum í sigrinum á Juve.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×