Körfubolti

Durant lykillinn að sextánda gulli Bandaríkjanna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kevin Durant fór fyrir bandaríska liðinu í nótt.
Kevin Durant fór fyrir bandaríska liðinu í nótt. Gregory Shamus/Getty Images

Bandaríkin urðu í nótt Ólympíumeistarar í körfubolta karla í sextánda sinn. Lið þeirra náði fram hefndum gegn liði Frakka, sem þeir töpuðu fyrir í fyrsta leik sínum á mótinu.

Bandaríkin töpuðu sínum fyrsta leik á Ólympíuleikum síðan 2004 þegar Frakkar lögðu þá 83-76 í fyrsta leik beggja liða á mótinu í riðlakeppninni. Fyrir úrslitaleik næturinnar höfðu Bandaríkin unnið alla sína leiki síðan þá, rétt eins og Frakkar, á leið liðanna í úrslit keppninnar.

Í útsláttarkeppninni unnu Bandaríkin nokkuð örugga sigra á Spáni og Ástralíu til að komast í úrslitin á meðan Frakkar unnu Ítalí og mörðu svo Slóveníu í undanúrslitum.

Leikur næturinnar var jafn frá upphafi. Bandaríkin höfðu fjögurra stiga forystu, 22-18, eftir fyrsta leikhluta og staðan í hálfleik var 44-39 fyrir þá bandarísku. Forskotið var orðið átta stig, 71-63 fyrir lokaleikhlutann.

Alltaf voru Frakkar skrefi á eftir en þeim tókst ekki að saxa almennilega á forskot Bandaríkjanna fyrr en undir lok leiks, í stöðunni 85-82 þegar örfáar sekúndur voru eftir. Tvö vítaskot Kevins Durant í lokin tryggðu þeim bandarísku 87-82 sigur og þar með gullið.

Durant átti hörkuleik og var langstigahæstur á vellinum með 29 stig. Jayson Tatum var næstur í bandaríska liðinu með 19 og Jrue Holiday var með 11 stig.

Hjá Frökkum skoraði Evan Fournier 16 stig, líkt og Rudy Gobert, en Guerschon Yabusele var með 13 og Nando De Colo 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×