Sport

Stukku jafnlangt en Grikkinn fékk gullið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Frá Tókýó í dag.
Frá Tókýó í dag. vísir/Getty

Keppni í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum í Tókýó var fyrirferðamikil á tíunda keppnisdegi leikanna í dag og nótt.

Langstökkskeppnin í karlaflokki í nótt var æsispennandi þar sem hinn gríski Miltiadis Tentoglou háði harða baráttu við Kúbumanninn Juan Miguel Echevarria.

Stukku þeir báðir 8,41 metra í lokastökki sínu og voru því jafnir í fyrsta sæti. Hins vegar er það svo að þegar tveir keppendur eru jafnir í langstökki er næstlengsta stökk jafningjanna látið telja og þar sem Tentoglou stökk næstlengst 8,11 metra en Echevarria 8,09 metra fer gullmedalían til Grikklands.

Annar Kúbumaður, Maykel Masso, varð í þriðja sæti; stökk lengst 8,21 metra.

Í 100 metra grindahlaupi kvenna vann Jasmine Camacho-Quinn á afar sannfærandi hátt en hún hafði eignað sér Ólympíumet í undanrásunum. 

Um sögulegan sigur er að ræða þar sem að Camacho-Quinn er fyrsti keppandinn frá Púertó Ríkó til að vinna gullverðlaun í frjálsum íþróttum í Ólympíusögunni.

Kendra Harrison, Bandaríkjunum, hreppti silfrið og Megan Tapper, Jamaíku, varð þriðja.

Hollenski lang­hlaup­ar­inn Sif­an Hass­an kom fyrst í mark í 5000 metra hlaupi kvenna. Hell­en Obiri frá Kenýa varð önnur og Gudaf Tsegay frá Eþíópíu þriðja.

Hassan er fædd og uppalin í Eþíópíu en fluttist til Hollands sem flóttamaður þegar hún var fimmtán ára gömul. 

Hellidemba setti svip sinn á frjálsíþróttakeppnina á leikunum í dag og hafði hún mismikil áhrif á greinarnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×