Erlent

Her­foringjar hand­teknir fyrir mis­heppnaða til­raun til að myrða for­setann

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Andry Rajoelina (f.m.) hefur verið forseti Madagaskar frá árinu 2009.
Andry Rajoelina (f.m.) hefur verið forseti Madagaskar frá árinu 2009. Getty/Henitsoa Rafalia

Hátt settir menn í hernum og lögreglunni í Madagaskar hafa verið handteknir í tengslum við misheppnaða tilraun til að ráða forseta landsins af dögum. Þar á meðal eru fimm herforingjar og nokkrir lögreglumenn.

Tuttugu og einn ber nú stöðu sakbornings í rannsókninni á morðtilræðinu. Þá hafa yfirvöld lagt á hald á eitt skotvopn og 250 þúsund Bandaríkjadali í tengslum við rannsóknina. Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Tilraun var gerð til að ráða Andry Rajoelina, forseta landsins, af dögum fyrir um mánuði síðan auk annarra hátt settra aðila. Lögregla tilkynnti að komið hafi verið í veg fyrir að morðáætlanirnar hafi gengið lengra. Þá var aðeins mánuður liðinn síðan tilraun hafði verið gerð til að myrða ríkislögreglustjóra Madagaskar.

Mikil óvissa hefur ríkt á Madagaskar undanfarna mánuði. Útgöngubann hefur gilt á eyjunni af og á síðan kórónuveirufaraldurinn skal á í fyrra og þá hefur hungursneyð ríkt í suðurhluta landsins undanfarin misseri.

Rajoelina hefur verið við völd frá árinu 2009 þegar hann velti Marc Ravalomanana úr valdastóli með aðstoð hersins. Þá sigraði hann síðustu forsetakosningar, árið 2018, en Ravalomanana hafði boðið sig fram til embættisins. Margir telja að Rajoelina hafi beitt víðtæku kosningasvindli í forsetakosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×