Erlent

Hvítrússneskur spretthlaupari neitar að láta senda sig heim

Árni Sæberg skrifar
Krystsina Tsimanouskaya mun ekki bera fána Hvíta-Rússlands á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Krystsina Tsimanouskaya mun ekki bera fána Hvíta-Rússlands á Ólympíuleikunum í Tókýó. Ivan Romano/Getty

Krystsina Tsimanouskaya var tekin úr hvítrússneska ólympíuliðinu fyrir að gagnrýna þjálfara sína. Hún hefur óskað eftir aðstoð Alþjóðaólympíunefndarinnar enda segir hún að stjórnvöld séu að neyða hana til að fara til Hvíta-Rússlands.

„Ég ætla ekki aftur til Hvíta-Rússlands,“ segir Tsimanouskaya, sem átti að keppa í 200 metra spretthlaupi á morgun en hefur verið tekin úr ólympíuliði Hvíta-Rússlands.

Hún segir að ástæða þess sé að hún gagnrýndi ákvörðun þjálfara sinna um að hún ætti að keppa í 400 metra boðhlaupi á samskiptamiðlinum Telegram.

„Það er pressa á mér, þeir eru að reyna að koma mér út úr landinu án míns samþykkis. Ég bið Alþjóðaólympíunefndina að blanda sér í málið,“ sagði Tsimanouskaya.

Alþjóðaólympíunefndin sagði í færslu á Twitter að rætt hefði verið við Tsimanouskaya og að hún sé núna í fylgd yfirvalda á Haneda flugvelli og starfsmanni Ólympíuleikanna í Tokýó. 

Tsimanouskaya segir ákvörðunina um að hún skyldi keppa í boðhlaupi hafa verið tekna vegna þess að liðsmenn sem áttu að keppa fengu ekki keppnisleyfi vegna þess að tilskilin lyfjapróf skorti. Hún segir jafnframt að hún hafi verið skráð til keppni án hennar vitneskju.

Ólympíunefnd Hvíta-Rússlands hefur tilkynnt að Tsimanouskaya hafi verið tekin úr liðinu vegna tilmæla læknis vegna andlegs ástands hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×