Sport

Öll köst Guðna Vals ó­gild á Ólympíu­leikunum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Valur Guðnason i kringlukastkeppninni í Tókýó í nótt.
Guðni Valur Guðnason i kringlukastkeppninni í Tókýó í nótt. AP/David J. Phillip

Guðni Valur Guðnason er úr leik eftir undankeppni kringlukastsins á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt en hann náði ekki einu kasti gildu í keppninni.

Guðni Valur gerði tvö fyrstu köstin ógild og ákvað síðan að gera þriðja kastið viljandi ógilt líka þegar hann sá að það var ekki nógu langt.

Allir keppendur fengu þrjú köst en aðeins tveir fengu ekki eitt gilt kast en það voru Guðni Valur og Bretinn Lawrence Okoye.

Guðni kastaði fyrst í netið og annað kastið hans lenti utan geira sem má ekki. Annað kastið virtist vera um 58 metrar. Síðasta kastið var um 55 metrar en Guðni Valur vildi ekki láta mæla það kast og steig viljandi út úr hringnum.

Tólf bestu komust áfram í úrslitin en það þurfti 62,93 metra kast til að komast þangað. Íslandsmet Guðna Vals er upp á 69,35 metra en það setti hann í september í fyrra.

Það var þó einn Íslendingur á svæðinu sem brosti. Lærisveinar Vésteins Hafsteinssonar sem eru Svíarnir Daniel Ståhl og Simon Pettersson, komust báðir í úrslitin. Daniel Ståhl náði besta kasti dagsins sem var upp á 66,12 metra en Pettersson endaði í sjöunda sæti með kast upp á 64,18 metra.

Þar með hafa Íslendingar lokið keppni og enginn þeirra var nálægt því að komast áfram upp úr undankeppninni. Þetta eru því slakasta frammistaða Íslendinga á leikunum í mjög langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×