Erlent

Net­flix skyldar starfs­­fólk í bólu­­setningu

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Netflix hyggst krefja allt starfsfólk sem starfar innan svæðis A að undirgangast bólusetningu við Covid-19.
Netflix hyggst krefja allt starfsfólk sem starfar innan svæðis A að undirgangast bólusetningu við Covid-19. Getty

Efnisveitan og framleiðandinn Netflix hyggst gera bólusetningu gegn Covid-19 að skyldu fyrir allt starfsfólk og tökulið sem kemur að framleiðslunni.

Þess verður krafist að allt það starfsfólk sem fer inn á svokallað svæði A, sem er svæði leikara og tökuliðs, verði bólusett. Þar með verður Netflix fyrsta stúdíóið til þess að gera bólusetningu að skyldu.

Önnur fyrirtæki, eins og Google hafa þó gert slíkt hið sama og gert starfsfólki sínu skylt að undirgangast bólusetningu áður en það snýr aftur á skrifstofuna.

Krafa Netflix byggir á nýrri stefnu Bandalags kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda, þar sem strangar samskiptareglur hafa verið settar eftir að Delta-afbrigðið breiddist út. 

Krafan um bólusetningu mun fyrst um sinn aðeins eiga við starfsfólk Netflix í Bandaríkjunum, en mun svo gilda um starfsfólk þeirra út um allan heim eða 144 þúsund manns.

Leikarinn Sean Penn hefur tjáð sig um málið og vill að öllu starfsfólki verði skylt að fara í bólusetningu, ekki aðeins þeim sem starfa inni á svæði A. Hann hefur áður sagt að hann muni ekki snúa aftur í tökur á þáttunum Gaslit fyrr en allir leikarar og tökulið verði bólusett.

Búist er við því að fleiri fyrirtæki feti í fótspor Netflix og Google á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×