Sport

Snæfríður Sól bætti sinn besta árangur en Ragnheiður heldur Íslandsmetinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfríður Sól Jórunnardóttir hefur náð bestum árangri Íslendinga á þessum Ólympiuleikum þegar aðeins einn íslenskur keppandi á eftir að keppa.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir hefur náð bestum árangri Íslendinga á þessum Ólympiuleikum þegar aðeins einn íslenskur keppandi á eftir að keppa. Sundsamband Íslands

Snæfríður Sól Jórunnardóttir endaði í 34. sæti í undanrásum í 100 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Snæfríður Sól kom í mark á 56,15 sekúndum og varð í fjórða sæti í sínum riðli sem var þriðji riðill af sjö.

Snæfríður varð áttunda eftir fyrstu fimmtíu metrana en vann sig upp um fjögur sæti í seinni hluta sundsins. Það var aðeins sigurvegarinn í riðlinun, Kalia Antoniou frá Kýpur, sem synti hraðar en okkar kona á síðustu fimmtíu metrunum.

Snæfríður var skráð inn á leikana á 56,32 sekúndum og var því að bæta sinn besta árangur í þessari grein.

Íslandsmetið í 100 metra skriðsundi er orðið tólf ára gamalt en það setti Ragnheiður Ragnarsdóttir þegar hún synti á 55,66 sekúndum í apríl 2009. Ragnheiður heldur Íslandsmetinu en Snæfríður nálgast hana.

Þetta var önnur grein Snæfríðar á hennar fyrstu Ólympíuleikum en hún endaði í 22. sæti á 200 metra skriðsundi á nýju Íslandsmeti, 2:00.20 mín. Það var besti árangur Íslendings í sundkeppni þessara leika.

Þar með hafa allir íslensku sundmennirnir lokið keppni á þessum Ólympíuleikum. Anton Sveinn McKee varð í 24. sæti í undanrásum í 200 metra bringusundi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×