Körfubolti

Haukar í Evrópu eftir 15 ára hlé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Helena Sverrisdóttir er gengin til liðs við Hauka á nýjan leik og spilar það eflaust stóran þátt í ákvörðun félagsins að taka þátt í Evrópukeppni.
Helena Sverrisdóttir er gengin til liðs við Hauka á nýjan leik og spilar það eflaust stóran þátt í ákvörðun félagsins að taka þátt í Evrópukeppni. Vísir

Kvennalið Hauka í körfuknattleik hefur ákveðið að taka þátt í Evrópukeppni næsta haust. Mun liðið taka þátt í Evrópubikar félagsliða, FIBA EuroCup. Er þetta í fyrsta sinn í 15 ár sem íslenskt kvennalið tekur þátt í Evrópukeppni. Haukar voru einnig síðasta liðið til að taka þátt.

Frá þessu er greint á vef Alþjóða körfuknattleikssambandsins, FIBA. Alls eru 35 lið örugg með sæti í riðlakeppninni en hin taka þátt í tvískiptri undankeppni. Leikið verður heima og að heiman í undankeppninni og liðið sem hefur betur fer í riðlakeppni Evrópubikarsins.

Haukar eru í neðri styrkleikaflokknum í sinni undankeppni og er því ljóst að liðið mun mæta sterkari mótherjum – á pappír allavega – í undankeppninni.

Dregið verður 19. ágúst næstkomandi og þá kemur í ljós hvaða liði Haukar munu mæta. Mögulegir mótherjar eru Flammes Carolo, Tarbes Gespe Bigorre [bæði frá Frakklandi], Ensino Lugo, CB Islas Canarias [Spáni], VOO Liege [Belgíu], Clube Uniao Sportiva [Belgíu] og Grengewald Hueschtert [Lúxemborg].

Haukar tóku síðast þátt í Evrópukeppni tímabilin 2005 til 2006 og 2006 til 2007. Þá lék liðið sex leiki á hvoru tímabili. Leikið var gegn sterkum andstæðingum og töpuðust leikirnir því allir.

Þá var ung Helena Sverrisdóttir besti leikmaður Haukaliðsins en hún gekk aftur í raðir félagsins nýverið frá Íslandsmeisturum Vals og talaði um metnaðinn í Hafnafirði sem eina af ástæðum skiptanna. 

Hún er nú orðin 33 ára gömul og fær nú annað tækifæri til að vinna Evrópuleik með uppeldisfélagi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×