Innlent

Langar raðir og gestir tjald­svæðisins í vand­ræðum með að finna sér mat

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tómir kælar og hillur blöstu við gestum Gvendarkjara, sem opnaði um miðjan síðasta mánuð.
Tómir kælar og hillur blöstu við gestum Gvendarkjara, sem opnaði um miðjan síðasta mánuð. vísir/aðsend

Tjald­svæðið á Kirkju­bæjar­klaustri er alveg að fyllast og virðist kominn upp hálf­gerður vöru­skortur á svæðinu vegna fjölda gesta þar. Mjög langar raðir mynduðust í verslunum svæðisins í dag þar sem lítið er eftir af fýsi­legum mat­vælum.

„Það er allt tómt. Ekki til kjöt, brauð, kar­töflur eða neitt. Raðirnar í búðinni eru sirka fimm­tíu manns og allir að leita sér að ein­hverju að borða á yfir­fullum tjald­stæðum,“ segir gestur nokkur á svæðinu, sem tók með­fylgjandi myndir, í sam­tali við Vísi.

Eitthvað álegg er eftir en brauðið er þó af skornum skammti.vísir/aðsend

Starfs­maður tjald­svæðisins segist einnig hafa orðið var við þetta vanda­mál.

„Já, við höfum heyrt af því frá nokkrum gestum að þeir hafi átt erfitt með að finna sér mat,“ segir hann.

Frá tjaldsvæðinu á Kirkjubæjarklaustri.vísir/vilhelm

Á svæðinu eru bæði nýja búðin Gvendar­kjör og sjoppan Skaft­ár­skáli. Starfs­maður tjald­svæðisins segir sama vanda­mál hafa verið uppi hjá báðum verslunum og að mjög langar raðir hafi myndast við þær báðar í dag.

Hann segir að enn séu nokkur laus pláss á tjald­svæðinu, sem sé þó í þann mund að fyllast. Liðin vika hafi verið sú anna­samasta í ár.

Ekki náðist í eigendur Gvendarkjara í kvöld en starfsmaður tjaldsvæðisins segir að ný vörusending hljóti að vera á leiðinni þangað.

Lítið eftir af snakki og kexi, sem hlýtur að teljast vin­sæll úti­leigu­matur.vísir/aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×