Viðskipti innlent

Heildar­laun lækkuðu í sumum starfs­greinum

Eiður Þór Árnason skrifar
Heildarlaun starfsfólks verslana lækkuðu milli áranna 2019 og 2020. Líklegt er að styttri vinnutími skýri mest af þeirri þróun.
Heildarlaun starfsfólks verslana lækkuðu milli áranna 2019 og 2020. Líklegt er að styttri vinnutími skýri mest af þeirri þróun. Vísir/vilhelm

Grunnlaun hækkuðu að jafnaði um 6,6% milli áranna 2019 og 2020. Á sama tíma hækkuðu heildarlaun fullvinnandi um 5,3% og því ljóst að stytting vinnutíma hefur haft áhrif á þróunina.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru regluleg laun launafólks í fullu starfi að meðaltali 670 þúsund krónur á mánuði á árinu 2020. Heildarlaun voru að meðaltali 794 þúsund krónur á mánuði á sama tíma, eða 18,5% hærri en reglulegu launin. Kemur þessi viðbót einkum til vegna yfirvinnu. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Bæði grunnlaun og heildarlaun hækkuðu langmest í gisti- og veitingarekstri, eða um 12% og 14%.

„Það kemur vel heim og saman við að launastigið er lægst í þessum greinum og að allar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum á árinu 2020 voru krónutöluhækkanir,“ segir í Hagsjánni.

Heildarlaun lækkuðu í verslun, viðgerðum og byggingastarfsemi

Bæði regluleg mánaðarlaun og heildarlaun fólks í fullu starfi voru hæst í fjármála- og vátryggingarstarfsemi á árinu 2020 og næsthæst í rafmagns- og hitaveitum. Lægstu launin voru í gisti- og veitingarekstri og í vatns- og fráveitum og meðhöndlun úrgangs. Grunnlaun hækkuðu minnst í verslun og viðgerðum og í fjármála- og vátryggingastarfsemi.

Fram kemur í greiningu hagfræðideildar Landsbankans að heildarlaun hafi lækkað í verslun, viðgerðum, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð samhliða töluverðri hækkun grunnlauna. Líklegt er að styttri vinnutími skýri mest af þeirri þróun.

Faraldurinn hafði áhrif á meðallaun

Greiddum stundum fullvinnandi launafólks fækkaði að meðaltali um þrjár stundir á mánuði, eða 1,4%, milli áranna 2019 og 2020. Um er að ræða allar greiddar stundir og má rekja styttinguna bæði til samninga um styttingu vinnutíma og færri yfirvinnustunda sem unnar voru á árinu, er fram kemur í Hagsjá Landsbankans.

Vinnustundum fækkaði mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um 5,7%, og næstmest í verslun og viðgerðum, um 3,1%.

Eftir að faraldurinn skall á færðist hluti launafólks úr fullu starfi í hlutastarf og launafólki á vinnumarkaði fækkaði að jafnaði meira í lægra launuðum störfum. Höfðu þær breytingar líklega áhrif á meðallaun í ákveðnum störfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×