Umfjöllun: Breiðablik - Racing 2-0 | Blikar fara til Vínarborgar

Dagur Lárusson skrifar
Árni Vilhjálmsson saug á sér þumalinn eftir að hafa komið Breiðabliki í 2-0.
Árni Vilhjálmsson saug á sér þumalinn eftir að hafa komið Breiðabliki í 2-0. vísir/Hulda Margrét

Breiðablik bar sigurorð af Racing í seinni leik liðanna í Sambandsdeildinni í kvöld en lokatölur voru 2-0. Með sigrinum er Breiðablik komið í næstu umferð.

Fyrri leikur liðanna endaði með 3-2 sigri Blika eftir að Damir Muminovic skoraði ótrúlegt mark í lok leiksins sem tryggði þeim sigur.

Gestirnir í Racing mættu því á Kópavogsvöll í dag vitandi það að þeir þyrftu að sækja og skora allaveganna tvö mörk til þess að sigra í einvíginu og komast áfram í næstu umferð.

Það var þó ekki að sjá á spilamennsku gestanna þar sem þeir lágu til baka og leyfði Blikum að vera með boltann á sínum vallarhelming nánast allan fyrri hálfleikinn. Þeir ætluðu augljóslega að treysta á skyndisóknir með Yann Mabella þar í lykilhlutverki en það gekk ekki upp. Það voru því ekki mikið um færi í fyrri hálfleiknum en það var þó tvisvar þar sem markmenn liðanna þurftu að reyna á sig.

Í fyrra skiptið vann Thomas Mikkelsen boltann hátt uppi á vellinum og gaf boltann á Viktor Karl sem var inni í teig en hann hljóp yfir boltann sem barst þá til Jasonar hægra megin í teignum sem var þá einn gegn markverði Racing. Jason tók skotið en náði ekki að sigra markvörðinn sem varði glæsilega. Svo var það um miðbik hálfleiksins þar sem Yann Mabella fékk boltann á kantinum, leitaði inn á völlinn og tók svo hörku skot að marki sem endaði í stönginni. Anton í marki Breiðabliks skutlaði sér á eftir boltanum en hefði þó ekki varið þetta rosalega skot.

Jason Daði Svanþórsson skorar fyrra mark Breiðabliks.vísir/Hulda Margrét

Það var markalaust í hálfleiknum en það tók Blika ekki langan tíma að skora í seinni hálfleiknum. Á 50. mínútu fékk Davíð Ingvarsson boltann vinstra megin, lék glæsilega framhjá varnarmanni Racing og gaf svo hnitmiðaða og fasta sendingu með jörðinni inn á teig þar sem Jason var réttur maður á réttum stað og stýrði boltanum í netið. 1-0 fyrir Breiðablik og því orðin brekka fyrir gestina.

Gestirnir þurftu nú að að breyta um leikplan og byrjuðu að pressa Blikana sem olli því að Blikar fengu meira pláss fyrir aftan vörn Racing. Árni Vilhjálmson nýtti sér það á 69.mínútu, þegar hann var nýkominn inn á en þá lyfti hann boltanum skemmtilega yfir vörn Racing og var kominn einn í gegn. Holter, varnarmaður Racing, náði þó að elta hann uppi en endaði með því að brjóta á honum rétt fyrir utan vítateig. Holter var aftasti varnarmaður og fékk því að líta beint rautt. Árni tók spyrnuna sjálfur en skotið fór framhjá.

Það var síðan á 74.mínútu þar sem annað mark Blika kom en þá vann Viktor Karl boltann á miðjunni og hljóp framhjá tveimur leikmönnum Racing áður en hann gaf boltann inn fyrir á Árna sem var einn gegn markverði Racing og kláraði glæsilega í netið. Staðan orðin 2-0 og voru það lokatölur leiksins.

Breiðablik því komið áfram í næstu umferð í Sambandsdeildinni sem fer fram í næstu viku en þar mæta þeir Austria Vín.

Davíð Ingvarsson átti afar góðan leik.vísir/Hulda Margrét

Afhverju vann Breiðablik?

Gestirnir mættu á Kópavogsvöll með mjög sérkennilegt leikplan. Þeir ákváðu að liggja til baka og leyfa Blikum að vera með boltann og treysta á skyndisóknir. Blikar áttuðu sig á þessu leikplani snemma leiks og voru ekki á þeim buxunum að falla í gildruna og gerðu það svo sannarlega ekki. Þeir vissu að gestirnir þyrftu að færa sig framar á völlinn er líða færi á leikinn og það varð raunin. Þá kveiktu Blikar á sér og kláruðu dæmið.

Hverjir stóðu uppúr?

Varnarmann Blika gerðu ekki margt rangt í þessum leik og var Damir enn og aftur frábær. Davíð Ingvarsson var þó klárlega maður leiksins. Hann varðist glæsilega og sýndi frábær tilþrif sóknarlega og þar á meðal þegar hann lagði upp fyrsta markið á Jason.

Hvað fór illa?

Leikplanið hjá gestunum var mjög lélegt. Þeir vissu fyrir leik að þeir þyrftu að skora tvö mörk til þess að vinna einvígið en í stað þess að sækja og pressa á Blikana þá lágu þeir til baka og treystu á skyndisóknir. Mjög sérkennileg ákvörðun hjá þjálfara Racing sem á endanum kostaði þá einvígið.

Hvað gerist næst?

Breiðablik mætir Austria Vín í næstu umferð í Sambandsdeildinni í næstu viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira