Viðskipti innlent

Vonar að stjórnvöld endurtaki ekki leikinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. Samsett

Styrkir sem stjórnvöld veittu háskólum til að bjóða upp á sumarnámskeið á síðasta ári fólu ekki í sér ólögmæta ríkisaðstoð að sögn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Félag atvinnurekenda (FA) er ósammála niðurstöðunni og segir hana vera vonbrigði.

ESA barst kvörtun frá FA í júní í fyrra þar sem því var haldið fram að íslensk stjórnvöld hefðu veitt ólögmæta ríkisstyrki til þriggja háskóla með því að veita þeim 500 milljóna króna viðbótarframlög til að skipuleggja sumarnámskeið. Sjö opinberir háskólar fengu viðbótarfjármagn í því skyni á síðasta ári.

Af hálfu Félags atvinnurekenda var því haldið fram að hinir ólögmætu ríkisstyrkir hefðu veitt umræddum háskólum óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart einkareknum fræðsluaðilum sem bjóði upp á sambærileg námskeið. 

Til að mynda hafi Endurmenntun Háskóla Íslands lækkað verð á námskeiðum sem hluta af úrræðinu og rukkað þrjú þúsund krónur fyrir námskeið sem áður kostuðu tugi þúsunda.

Séu í beinni samkeppni við einkarekin fyrirtæki

„Það er algjörlega galið að skilgreina ekki starfsemi endurmenntunarstofnana háskólanna sem efnahagslega starfsemi. Það er augljóst að þessar stofnanir starfa á samkeppnismarkaði í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA í samtali við Vísi.

„Það er bara ekki nokkur leið að halda því fram að þetta sé eingöngu almannaþjónusta og það hvernig rekstri hennar er hagað hafi ekki áhrif á samkeppni á markaði.“

Átak stjórnvalda er hluti af mótvægisaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins og viðbrögðum við fækkun sumarstarfa. Í ár setti ríkisstjórnin 650 milljónir króna í sumarnám en þar af fór hálfur milljarður til háskólanna. Upphæðin var alls 800 milljónir króna í fyrra.

FA og einkarekin fræðslufyrirtæki gagnrýndu það harðlega í vor að stjórnvöld hygðust styðja skólana með sama hætti í ár á sama tíma og málið væri enn til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu og ESA.

Valdið miklu tjóni

Ólafur segir alveg ljóst að umræddar niðurgreiðslur hafi valdið miklu tjóni hjá einkareknum fræðslufyrirtækjum.

Samkeppniseftirlitið beindi þeim tilmælum til menntamálaráðuneytisins í maí að ígrunda betur samkeppnislagar afleiðingar slíkra aðgerða. Þá kallaði eftirlitið eftir því að gert yrði almennilega grein fyrir fjárhagslegum aðskilnaði milli samkeppnisreksturs og annars reksturs hjá endurmenntunardeildum háskólanna.

Úrræðið var hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins og skorts á sumarstörfum. Félag atvinnurekenda óskaði svörum frá Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, vegna málsins.Vísir/Vilhelm

Ólafur telur að þrátt fyrir að ESA hafi ekki fallist á málarekstur FA og fræðslufyrirtækjanna hafi hann ýtt bæði við menntamálaráðuneytinu og háskólunum sem gæti sín nú betur þegar kemur að hugsanlegum samkeppnisrekstri.

„Við gerum ráð fyrir því að þetta ferli sem við erum búnir að fara í gegnum með Samkeppniseftirlitinu og ESA þýði að minnsta kosti að menn endurtaki ekki þennan leik.“

Að sögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins sóttu tæplega fimm þúsund nemendur um 260 námskeið á vegum háskólanna síðasta sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×