Fótbolti

Forsíður ensku blaðanna eftir tapið í úrslitaleik EM: Svekkelski, tár fyrir hetjurnar og stolt ljónanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Forsíður Daily Express og The Independent.
Forsíður Daily Express og The Independent.

Tapið sára fyrir Ítalíu var að sjálfsögðu áberandi á forsíðum ensku blaðanna í morgun.

England tapaði fyrir Ítalíu í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik EM á Wembley í gær. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var jöfn, 1-1, en Ítalir unnu vítakeppnina, 3-2. Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka klúðruðu sínum spyrnum fyrir Englendinga.

Saka, sem tók síðustu spyrnu Englands, er á mörgum forsíðum í faðmi landsliðsþjálfarans Gareths Southgate. Hann þekkir það sjálfur að klúðra víti á ögurstundu í stórum leik á Wembley en sem kunnugt er brenndi hann af sinni spyrnu í vítakeppninni í leik Englands og Þýskalands í undanúrslitum EM 1996.

„Þetta endar allt í tárum,“ stendur á forsíðu Daily Mail með mynd af Saka og Southgate. Þeir eru einnig á forsíðu The Guardian sem segir einfaldlega: „Svo nálægt.“

The Independent, Daily Mirror, The Sun og The Daily Express segja tapið svekkjandi en að ensku leikmennirnir hafi gert þjóðina stolta með framgöngu sinni á mótinu. 

The Times grípur í ítölskuna á sinni forsíðu og segir: „arrivederci“, eða sjáumst seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×