Fótbolti

Segir dómarann og VAR hafa tekið rétta ákvörðun

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atvikið umdeilda þegar Raheem Sterling féll til jarðar.
Atvikið umdeilda þegar Raheem Sterling féll til jarðar. Getty Images/Laurence Griffiths

John Stones, varnarmaður enska landsliðsins, segir að vítaspyrnan sem England fékk gegn Danmörku á miðvikudag hafi verið réttur dómur.

Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma en í framlengingunni dæmdi dómari leiksins, Danny Makkelie, umdeilda vítaspyrnu.

Raheem Sterling féll þá í teignum eftir baráttu við Joakim Mæhle en Danny var ekki í vafa og benti á punktinn. VAR dró vítið ekki til baka og Harry Kane skoraði.

Stones er sammála dómnum og nennti lítið að ræða hann meira í samtali við TMW.

„Þetta var víti. Ég er búinn að sjá þetta aftur og dómarinn tók rétta ákvörðun og VAR einnig,“ sagði Stones.

„Ég vil ekki að tala um hvort að þetta hafi verið umdeilt eða ekki, því í mínum augum var þetta rétt ákvörðun.“

England spilar úrslitaleikinn við Ítalíu á sunnudaginn kemur en flautað verður til leiks á Wembley klukkan 19.00.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×