Erlent

Telja að hinn full­orðni hafi myrt börnin í lestar­slysinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Að sögn lögreglunnar í Svíþjóð er talið að sá fullorðni sem dó í lestarslysinu hafi myrt börnin tvö.
Að sögn lögreglunnar í Svíþjóð er talið að sá fullorðni sem dó í lestarslysinu hafi myrt börnin tvö. EPA-EFE/Bjorn Larsson Rosvall

Lögreglan í Hässleholm í Svíþjóð segir að frumrannsókn vegna lestarslyssins sem varð í gærmorgun í Tormestorp, rétt fyrir utan Hässleholm, muni taka langan tíma. Þrír dóu í slysinu, þar af tvö börn, en morðrannsókn hófst í gær aðeins klukkutímum eftir slysið.

Börnin bera stöðu myrtra í rannsókninni að sögn lögreglu, sem vill lítið annað segja um málið. Börnin og hinn fullorðni tengdust einhverjum böndum en lögregla hefur enn ekki skýrt hver tengslin voru.

Rannsókn á vettvangi lauk í gær en tæknideild lögreglunnar var að störfum við lestarteinana í allan gærdag. Slysið varð rétt fyrir klukkan ellefu í gærmorgun, að staðartíma, og lauk störfum lögreglu á vettvangi ekki fyrr en líða tók á kvöldið.

Allar lestarsamgöngur um Hässleholm voru stöðvaðar eftir slysið og var farþegum lestarinnar gert að bíða í henni þar til klukkan eitt í gær áður en rýming hófst. Við tóku skýrslatökur hjá lögreglu sem segir að verið sé að vinna að því að komast að því hvað nákvæmlega gerðist með hjálp vitnanna.

„Slysið hefur verið rannsakað í þaula en við viljum ekki upplýsa nánar um málið að svo stöddu vegna ættingjanna,“ segir Robert Loeffel, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, í samtali við sænska ríkisútvarpið.

„Ég tel að frumrannsóknin muni taka langan tíma. Sá sem er grunaður um morðið er dáinn en við teljum ekki að annar hafi staðið að morðinu,“ segir Loeffel.


Tengdar fréttir

Hópur fólks varð fyrir lest í Svíþjóð

Hópur fólks varð fyrir lest rétt fyrir utan Hässleholm í Svíþjóð í morgun. Ekki er vitað hve margir urðu fyrir lestinni en yfirmaður björgunarsveita sem brást við slysinu segir að það sé mjög alvarlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×