Erlent

Fram­lengja út­göngu­bann í S­yd­n­ey

Atli Ísleifsson skrifar
Áströlum hefur gengið almennt vel að hefta útbreiðslu veirunnar, en einungis hafa um 31 þúsund smit komið upp og þá hafa 910 dauðsföll verið rakin til Covid-19.
Áströlum hefur gengið almennt vel að hefta útbreiðslu veirunnar, en einungis hafa um 31 þúsund smit komið upp og þá hafa 910 dauðsföll verið rakin til Covid-19. AP

Yfirvöld í Nýju-Suður Wales í Ástralíu hafa ákveðið að framlengja útgöngubann í stórborginni Sydney um viku til viðbótar, eða til 16. júlí. Útgöngubanninu var komið á fyrir rúmum tveimur vikum í tilraun til að hefta útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar.

Gladys Berejiklian, forsætisráðherra Nýju-Suður Wales, segir að sú „erfiða ákvörðun“ að framlengja takmarkanir hafi verið tekin eftir að í ljós kom að hópsmit hafi komið upp þar sem sýktir einstaklingar hafi rofið sóttkví til að nálgast nauðsynjar.

Alls hafa um 330 tilfelli komið upp síðustu daga, sem er mesti fjöldinn í borginni á þessu ári.

Útgöngubannið nær til um fimm milljóna íbúa í Sydney og nágrannaborgum, en upphaflega stóð til að takmörkunum yrði aflétt á föstudag. Skólar verða jafnframt lokaðir í næstu viku.

Eingungis innan við tíu prósent fullorðinna Ástrala teljast nú fullbólusettir. Bóluefnaskortur, sér í lagi þegar kemur að bóluefni Pfizer, þýðir að margir Ástralir sjái ekki fram á að fá bólusetningu fyrr en í lok árs, að því er segir í frétt BBC.

Áströlum hefur gengið almennt vel að hefta útbreiðslu veirunnar, en einungis hafa um 31 þúsund smit komið upp og þá hafa 910 dauðsföll verið rakin til Covid-19.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×