Fótbolti

Lík­leg byrjunar­lið: Emer­son kemur inn hjá Ítalíu og Dani Olmo hjá Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dani Olmo og Emerson koma inn í liðin ef La Gazzetta dello Sport hefur rétt fyrir sér.
Dani Olmo og Emerson koma inn í liðin ef La Gazzetta dello Sport hefur rétt fyrir sér. EPA/Getty Images

Ítalski fjölmiðillinn La Gazzetta dello Sport reiknar ekki með að miklum breytingum á byrjunarliðum Ítalíu og Spánar er liðin mætast í undanúrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu klukkan 19.00 í kvöld. Talið er að bæði lið geri eina breytingu.

Roberto Mancini neyðist til að gera eina breytingu á byrjunarliði sínu eftir frábæran 2-1 sigur á Belgíu í 8-liða úrslitum. Vinstri bakvörðurinn Leonardo Spinazzola, leikmaður Roma, sleit hásin í sigrinum gegn Belgum og verður því frá það sem eftir lifir árs.

Talið er að Emerson, leikmaður Chelsea, taki sæti hans í byrjunarliði Ítalíu. Annars verður það líkt og í undanförnum leikjum.

Hjá Spánverjum er talið að Dani Olmo fái tækifæri í byrjunarliðinu eftir að hafa komið inn af bekknum í 5-3 sigrinum á Króatíu í 16-liða úrslitum og sigrinum á Sviss í 8-liða úrslitum. 

Síðari leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Olmo skoraði fyrsta mark Spánverja eftir að Sergio Busquets skaut í stöng.

Byrjunarlið liðanna samkvæmt La Gazzetta dello Sport má sjá hér að neðan.

Líkleg byrjunarlið í kvöld.Gazzetta dello Sport

Leikur Ítalíu og Spánar hefst klukkan 19.00 í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst 40 mínútum fyrr eða klukkan 18.20.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×