Fótbolti

Þjálfari Dana opnar sig um fjöl­skyldu­harm­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hjulmand talaði um margt og mikið á blaðamannafundi í dag. Þar á meðal þau áföll sem hann hefur orðið fyrir sem þjálfari.
Hjulmand talaði um margt og mikið á blaðamannafundi í dag. Þar á meðal þau áföll sem hann hefur orðið fyrir sem þjálfari. EPA-EFE/Valentin Ogirenko

Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, opnaði sig um fjölskylduharmleik á blaðamannafundi í dag. Þá minntist hann á að hafa verið að þjálfa er leikmaður varð fyrir eldingu og var í dái í tvo mánuði.

Öll þau sem horfðu á Christian Eriksen hníga niður í leik Danmerkur og Finnlands á Evrópumótinu í knattspyrnu fundu eflaust fyrir ónotatilfinningu er Eriksen lá hreyfingarlaus á vellinum.

Enginn þó eflaust meir heldur en Kasper Hjulmand sem stóð á hliðarlínunni. Hann missti nefnilega ættingja sinn eftir svipað atvik. Þjálfarinn ræddi atvikið á blaðamannafundi í dag.

Hjulmand er stór ástæða þess að danska liðið er komið í undanúrslit mótsins. Hann hefur fengið mikið hrós fyrir frammistöðu liðsins innan vallar sem og hvernig hann tók á áfallinu með Eriksen.

„Ég er með magnaða leiðtoga í hópnum hjá mér. Ég er með leikmenn sem ég get talað við um hvernig þeim líður sem og hvernig mér líður,“ sagði Hjulmand áður en hann hrósaði Morten Wieghorst, aðstoðarþjálfara sínum, í hástert.

Wieghorst veiktist illa er hann spilaði með Celtic á sínum tíma og barðist um stund fyrir lífi sínu. Þeir þjálfuðu Nordsjælland saman árið 2009 þegar Jonathan Richter, leikmaður liðsins, varð fyrir eldingu og var í dái í tvo mánuði áður en hann komst til meðvitundar á nýjan leik.

Kasper Hjulmand og Morten Wieghorst á góðri stund.Naomi Baker/Getty Images

„Við höfum gengið í gegnum mikið saman,“ sagði Hjulmand á fundinum. Í kjölfarið opnaði þjálfarinn sig varðandi fjölskylduharmleik.

„Frændi minn lést eftir að hafa fengið hjartaáfall á fótboltavelli. Ég hef því átt erfitt með tilfinningar mínar undanfarnar vikur, þær hafa verið út um allt og ég hef átt erfitt með að höndla þær. Ég fékk aðstoð sálfræðings til þess. Ég reyni ávallt að vera ég sjálfur og fela ekki neitt,“ sagði tilfinningaríkur Hjulmand á blaðamannafundi dagsins. Leikmenn danska liðsins fengu einnig aðstoð sálfræðinga eftir leikinn gegn Finnlandi.

Þó Hjulmand viðurkenni að fótbolti og hreyfing hjálpi mikið til við að gleyma slæmum hugsunum og tilfinningum þá er sérstaklega einn hlutur sem hjálpar Hjulmand dag frá degi.

„Ég á konu og þrjú börn. Ekkert mun toppa það að verða faðir,“ sagði Hjulmand að lokum er hann ræddi möguleika Dana á að endurtaka leikinn frá 1992 er liðið varð Evrópumeistari í knattspyrnu.

Danmörk mætir Englandi í undanúrslitum EM á miðvikudaginn, 7. júlí, klukkan 19.00. Leikurinn verður líkt og aðrir leikir mótsins í beinni á Stöð 2 Sport.



Tengdar fréttir

Þjálfari Dan­merkur: Fengum tvo val­mögu­leika

Kasper Hjulmand, þjálfar danska landsliðsins í knattspyrnu, sagði eftir 0-1 tapið gegn Finnlandi í dag að liðið hafi fengið tvo valmöguleika eftir að Christian Eriksen hné niður undir lok fyrri hálfleiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×