Erlent

Leirgos líklegasta skýringin á sprengingunni í Kaspíahafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Þyrlu var flogið yfir eyjuna í Kaspíhafi í morgun leit hún þá svona út.
Þyrlu var flogið yfir eyjuna í Kaspíhafi í morgun leit hún þá svona út.

Forsvarsmenn SOCAR, ríkisolíufyrirtækis Aserbaídsjan, segja svokallað leirgos vera líklegustu skýringuna fyrir sprengingunni í Kaspíhafi í gær. Mikið eldhaf lýsti upp himininn á svæðinu og vakti mikla furðu.

Mikil olíu- og jarðgasvinnsla á sér stað á þessu svæði Kaspíahafs og er ekki vitað til þess að skemmdir hafi orðið á búnaði né manntjón hafi átt sér stað.

Leirgos eru ekki raunveruleg eldgos og tengjast jarðhræringum ekki endilega. Þau myndast oftast þannig að gastegundir safnast saman undir sjávarbotni sem springur svo fram á yfirborðið. Samkvæmt grein Nature frá því í fyrra er búið að bera kennsl á rúmlega þúsund staði þar sem gos sem þessi hafa orðið.

Margir slíkir staðir eru í Kaspíahafi og í þetta sinn hefur fyrirbæri ausið bæði leðju og jarðgasi út í loftið. Ekki liggur fyrir hvernig kviknaði í gasinu. Líklegast þykir að grjót hafi skollið saman og myndað neista.

Upplýsingaráðuneyti Aserbaídsjan birti í morgun meðfylgjandi myndband sem sýnir eyjuna þar sem „leirgosið“ varð. Húnn ber nafnið Dashli og er í um 30 kílómetra fjarlægð frá ströndu.

Guardian hefur eftir Mark Tingay, sérfræðingi í leirgosum, að sprengingin í Kaspíahafi beri einkenni leirgoss. Þá sé staðsetningin á svæði þar sem annað slíkt átti sér stað árið 1958 en þá teygðu eldtungurnar sig 500-600 metra í loftið.

Hér má sjá kort Tingay af leirgosum í Aserbaídsjan og myndband af einu slíku.


Tengdar fréttir

Gríðarleg sprenging í Kaspíahafi

Mikil sprenging varð í Kaspíahafi undan ströndum Aserbaídsjan í dag. Sprengingin varð í nokkra kílómetra fjarlægð frá olíuborpalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×