Fótbolti

Tékkar Schick Tékk­land inn í undan­úr­slit eða hefur Kjær-leikur Dana betur?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrik Schick og Simon Kjær munu eigast við í dag.
Patrik Schick og Simon Kjær munu eigast við í dag. Vísir/EPA

Tékkland og Danmörk mætast í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í dag. Liðin hafa bæði þurft að ferðast yfir fjöll og firnindi en leikur dagsins fer fram í Bakú í Aserbaísjan. 

Ef ekki hefði verið fyrir ótrúlegan sigur Sviss á Frakklandi væri Tékkland sjálfvalið spútniklið mótsins til þessa. Það er kannski erfitt að velja lið sem endaði í 3. sæti í sínum riðli sem spútniklið en Tékkland hefur komið verulega á óvart.

Magnaður 2-0 sigur á Skotum í fyrstu umferð þar sem mark mótsins – til þessa – var skorað. Þar á eftir kom sterkt 1-1 jafntefli gegn Króatíu og svo 0-1 tap gegn Englandi í síðasta leik riðlakeppninnar skipti litlu þar sem Tékkarnir voru öruggir áfram.

Hið forna stórveldi Holland beið í 16-liða úrslitum en reyndist það lítil mótstaða. Patrik Schick hélt áfram að raða inn mörkum og Tékkar flugu inn í 8-liða úrslit. Schick hefur nú skorað fjögur af fimm mörkum Tékka á EM og virðist ætla vera ein af vonarstjörnum mótsins.

Það er ljóst að Simon Kjær og félagar í öftustu línu danska liðsins þurfa að hafa góðar gætur á Schick í dag. Kjær hefur fengið mikið lof á mótinu. Hann drýgði hetjudáð í fyrsta leik er landi hans Christian Eriksen hné til jarðar.

Hann – líkt og aðrir leikmenn danska liðsins – átti erfitt uppdráttar gegn Belgíu í annarri umferð riðlakeppninnar en hefur vart stigið feilspor eftir það. 

Erfitt er að dæma leikinn gegn Belgíu enda atvikið úr leiknum gegn Finnlandi enn í fersku minni. Undirritaður var í stúkunni á leiknum og annað eins andrúmsloft hefur maður vart upplifað.

Það er erfitt að setja í orð hvernig stemmningin á leiknum var en það virkaði sem leikmenn danska liðsins – og þess belgíska – væru andlega búnir á því í hálfleik. Eflaust hefur hitinn ekki hjálpað til en það slefaði í 30 gráður í Kaupmannahöfn þennan dag. Að eiga ferska Kevin De Bruyne og Eden Hazard á varamannabekknum hefur svo eflaust hjálpað Belgum í síðari hálfleik.

Kjær lét súrt 1-2 tap ekki á sig fá og rak sína menn áfram í lokaleiknum gegn Rússlandi. Þar vannst 4-1 sigur og sæti í 16-liða úrslitum í höfn. Þar reyndist Wales engin fyrirstaða, lokatölur 4-0 og Danir verðskuldað komnir í 8-liða úrslit.

Það er ekki að ástæðulausu að Danmörk situr í 10. sæti heimslista FIFA. Valinn maður í hverju rúmi og þó besti leikmaður liðsins verði ekki meira með má reikna með að samheldnin sé enn meiri í dag en hún var fyrir mót.

Tékkland, sem situr í 40. sæti heimslistans, átti ekki í neinum vandræðum með Holland [16. sæti] og er þeir til alls líklegir í dag. Með Schick í fararbroddi er allt hægt en Kjær-leikur Dana gæti reynst þeim ofviða.

Þetta kemur allt í ljós klukkan 16.00 að íslenskum tíma er liðin stíga á stokk í Bakú í Aserbaísjan. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport líkt og aðrir leikir Evrópumótsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×