Fótbolti

Stuðnings­fólk Eng­lands fær ekki að ferðast til Ítalíu til að sjá leikinn gegn Úkraínu í 8-liða úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það verða ekki alveg jafn margir að tryllast í stúkunni ef Raheem Sterling skorar gegn Úkraínu.
Það verða ekki alveg jafn margir að tryllast í stúkunni ef Raheem Sterling skorar gegn Úkraínu. EPA-EFE/Justin Tallis

Leikur Englands og Úkraínu í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu fer fram í Rómarborg á Ítalíu. Vegna sóttvarnareglna þar í landi verður ekkert stuðningsfólk Englands á leiknum, nema það sé búsett utan Englands.

EM alls staðar hefur heldur betur staðið undir nafni en England hefur sloppið merkilega vel þar sem liðið hefur leikið alla sína leiki til þessa á Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Einnig fara báðir undanúrslitaleikirnir sem og úrslitaleikurinn sjálfur fram á Wembley. 

Lið Úkraínu hefur ekki sloppið jafn vel en það spilaði riðlakeppnina annars vegar í Hollandi og hins vegar í Ungverjalandi. Þá fór leikur Úkraínu og Svíþjóðar í 16-liða úrslitum fram í Skotlandi.

England þarf loks að fara út fyrir landsteinana fyrir viðureign liðanna í 8-liða úrslitum en hún fer fram í Rómarborg á Ítalíu. Þar vandast málin fyrir stuðningsfólk Englands en ítölsk heilbrigðisyfirvöld hertu sóttvarnarreglur þann 21. júní.

Fólk sem hefur verið á Englandi á einhverjum tímapunkti undanfarnar tvær vikur áður en það kemur til Ítalíu þarf að fara í fimm daga sóttkví. Skiptir engu hvort fólk sé bólusett eða með neikvætt kórónuveirupróf.

Einu aðilarnir sem eru undanskyldir slíkri sóttkví eru starfsmenn Evrópusambandsins, diplómatar og stúdentar. Það er ef þeir aðilar eru aðeins 36 klukkustundir í landinu. Þau myndu samt ekki fá að mæta á leikinn þar sem fólk þarf að sýna fram á að hafa verið fimm daga í sóttkví til að komast inn á leikvanginn.

Skiptir engu máli hvort fólk sé með miða eður ei. Ef fólk reynir að svindla á sóttkví til að komast á leikinn á það yfir höfði sér sekt upp á 440 þúsund krónur

Englendingar búsettir á Ítalíu eða öðrum löndum í kring geta keypt miða á leikinn en enska knattspyrnusambandið skilaði öllum þeim miðum sem það fékk frá UEFA. Til að komast á leikinn þarf fólk að framvísa staðfestingu á að það sé fullbólusett eða að það hafi fengið Covid-19.

Það var frekar tómlegt um að litast er Ítalía mætti Wales í Róm. Reikna má með enn minna af fólki í stúkunni er England mætir Úkraínu.Ryan Pierse/Getty Images

Ítalía tekur ekki á móti ferðamönnum frá Úkraínu og því verður verulega forvitnilegt að sjá leik Englands og Úkraínu á Stadio Olimpico-vellinum í Rómarborg klukkan 19.00 á laugardaginn kemur þar sem það stefnir í tómar stúkur.

Sky Sports greindi frá.



Tengdar fréttir

Segir þá ensku finna lykt af gulli

Margrét Lára Viðarsdóttir, spekingur Stöðvar 2 Sports, hrífst ekki af leikstíl enska landsliðsins í fótbolta en segir hann árangursríkan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×