Erlent

Taívanskur drengur sem varpað var 27 sinnum í gólfið á júdó­æfingu látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Drengurinn hafði verið í öndunarvél í um sjötíu daga eftir að hafa misst meðvitund eftir æfinguna í apríl.
Drengurinn hafði verið í öndunarvél í um sjötíu daga eftir að hafa misst meðvitund eftir æfinguna í apríl. Getty

Sjö ára drengur, sem varpað var 27 sinnum í gólfið á júdóæfingu í Taívan í vor, er látinn. Foreldrar hans ákváðu að slökkva á öndunarvél hans, en hann hafði verið í dái í um sjötíu daga.

BBC segir frá því að drengurinn hafi fengið alvarlega heilablæðingu eftir að æfingafélagar hans og þjálfari æfðu köst sín á honum. Eftir æfinguna fór drengurinn í dá og var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann var settur í öndunarvél.

Þjálfari drengsins, sem er á sjötugsaldri og hefur í taívönskum fjölmiðlum kallast Ho, hefur verið ákærður fyrir líkamsárás sem hafi leitt til alvarlegra áverka. Sömuleiðis fyrir að hafa fengið ólögráða einstaklinga til að fremja glæp. Þjálfaranum var fyrr í mánuðinum sleppt úr haldi gegn tryggingu.

Drengurinn sótti júdóæfinguna þann 21. apríl, en það var frændi hans sem fylgdi honum. Tók frændinn myndir og myndskeið af æfingunni í þeim tilgangi að sýna móður drengsins að júdó væri ef til vill ekki rétta íþróttin fyrir drenginn til að stunda.

Á myndböndum má sjá eldri drengi kasta þeim sjö ára í gólfið sem hrópar af sársauka. Þjálfarinn skipar honum svo að standa upp og að eldri drengurinn haldi áfram að kasta honum. Þjálfarinn heldur svo sjálfur áfram að kasta drengnum áður en hann misstir meðvitund.

Fjölskylda drengsins segir að þjálfarinn hafi svo sakað drenginn um að hafa gert sér upp meiðslin.

Í frétt BBC segir ennfremur að í ljós hafi komið að umræddur þjálfari hafi ekki verið með réttindi til að þjálfunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×