Erlent

Fundu Picasso-verk tíu árum eftir að því var stolið

Atli Ísleifsson skrifar
Konuhöfuð er málað í kúbönskum stíl Picassos. Myndin er tekin árið 2012, áður en verkinu var stolið af Listasafni Grikklands í Aþenu.
Konuhöfuð er málað í kúbönskum stíl Picassos. Myndin er tekin árið 2012, áður en verkinu var stolið af Listasafni Grikklands í Aþenu. EPA

Lögregla í Grikklandi hefur haft uppi á málverki eftir spænska listmálarann Pablo Picasso sem stolið var af listasafni í höfuðborginni Aþenu fyrir um tíu árum síðan.

Verkið sem um ræðir, Konuhöfuð, fannst í gljúfri um fimmtíu kílómetrum frá Aþenu. Þar fannst einnig verk eftir hollenska málarann Piet Mondrian, en það verk var mikið skemmt.

Grískir fjölmiðlar segja frá því að 49 ára gamall maður hafi verið handtekinn vegna gruns um að hafa stolið verkum þeirra Picasso og Mondrian, auk eins verks til viðbótar. Gríska menningarmálaráðuneytið hefur sömuleiðis staðfest að verkin séu komið í leitirnar.

Konuhöfuð er metið á um 2,4 milljarða íslenskra króna, en Picasso sjálfur færði Grikkjum verkið að gjöf árið 1949 sem þakkarvott fyrir að hafa barist gegn uppgangi nasismans á tímum seinna stríðs.

Þjófurinn stal alls þremur verkum af Listasafni Grikklands í Aþenu árið 2012, en honum tókst að fjarlægja strigana af römmunum áður en hann lét sig hverfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×