Innlent

Ferðamaðurinn fundinn heill á húfi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá eldgosinu á Reykjanesi.
Frá eldgosinu á Reykjanesi. Vísir/Vilhelm

Bandaríski ferðamaðurinn sem leitað hefur verið að við gosstöðvarnar á Reykjanesi er fundinn heill á húfi. Hann fannst um fjóra kílómetra norðvestur af gosstöðvunum og hafði gengið í þveröfuga átt.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að maðurinn hafi verið nokkuð hress en þó lerkaður þegar hann fannst. Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið á staðinn að flytja manninn til byggða en of langt var að ganga að næsta björgunarsveitarbíl. Hann fékk mat og drykk hjá björgunarsveitarfólki.

„Hann var bara mjög hress og kátur miðað við aðstæður,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg, við Vísi.

Lögreglan á Suðurnesjum sagði í Facebook-færslu að maðurinn væri aðeins hruflaður og meiddur og að hann verði fluttur til skoðunar á sjúkrahúsi.

Umfangsmikil leit hófst að manninum, sem er tæplega sextugur, í gærkvöldi en hans hafði þá verið saknað síðan hann varð viðskila við konu sína um miðjan daginn. Vel á þriðja hundrað björgunarsveitarfólks víða að af landinu tók þátt í leitinni ásamt þyrlu Gæslunnar, leitar- og sporhundum og drónum.

Uppfært 20:58 Maðurinn er kominn til Reykjavíkur. Hann var fluttur á sjúkrahús til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×