Viðskipti innlent

Atvinnuleysi komið niður í 5,8 prósent

Snorri Másson skrifar
Atvinnuleysi dregst saman.
Atvinnuleysi dregst saman. Vísir/Vilhelm

Atvinnuleysi á Íslandi dróst saman um 2,8% á milli apríl og maí. Það stendur í 5,8% samkvæmt nýju mati Hagstofunnar. Á meðal ungs fólks, 16-24 ára, dróst atvinnuleysisstigið saman um 13,7% á milli mánaða.

Þegar mest lét mældist atvinnuleysi 9,9% í maí 2020, sem var sögulega hátt.

Taka skal fram að téð atvinnuleysisstig ungs fólks er árstíðaleiðrétt, þannig að þar er um að ræða raunverulegar framfarir, sem eru ekki háðar því að sumarfrí frá skólum sé hafið.

Áætlað er að samtals séu 17.600 atvinnulausir á Íslandi, sem eru 8,4% af vinnuaflinu, sem telur um 210 þúsund manns. Með árstíðaleiðréttingu fer hlutfallið niður í 5,8%.

Áætlað er að 36.500 einstaklingar hafi haft „óupfyllta þörf fyrir atvinnu“ í maí 2021 sem jafngildir 16,6% af vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 48,4% atvinnulausir, 16,1% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 10,5% í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 25,0% vinnulitlir (starfandi í hlutastarfi sem vilja vinna meira).

Samanburður við maí 2020 sýnir að hlutfall þeirra sem hafa óuppfyllta þörf fyrir atvinnu hefur lækkað um 3,3 prósentustig á milli ára. segir á vef Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×