Fótbolti

Færu líklega á hausinn ef þau ætti að borga konunum það sama og körlunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe og félagar í bandaríska landsliðinu hafa barist fyrir jöfnum kjörum í mörg ár.
Megan Rapinoe og félagar í bandaríska landsliðinu hafa barist fyrir jöfnum kjörum í mörg ár. Getty/Catherine Ivill

Cindy Parlow Cone, forseti bandaríska knattspyrnusambandsins, segir að sambandið myndi ekki ráða við það fjárhagslega að verða við kröfum leikmanna kvennalandsliðsins sem hafa stefnt sambandinu.

Parlow Cone er fyrrum heims- og Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu og lék á sínum tíma 158 landsleiki. Hún hefur verið forseti sambandsins frá því í mars 2020 þegar fyrirrennari hennar sagði af sér.

Parlow Cone segir það ómögulegt fyrir sambandið að jafna út árangurstengdar greiðslur milli kynjanna og ástæðan sé mikill munur á verðlaunafé frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu.

Hún segir að það sé stefna bandaríska knattspyrnusambandsins að borga landsliðskonum og landsliðskörlum það sama en að það sé ómögulegt að verða við kröfum landsliðskvennanna sem vilja meðal annars 66 milljónir dollara í bætur.

„Við getum ekki orðið við því af því að við höfum enga stjórn á verðlaunafénu frá FIFA. Það væri ógerlegt fyrir okkur að vega upp mismuninn og myndi líklega setja sambandið á hausinn,“ sagði Cindy Parlow Cone.

„Aðalhindrunin er eins og allir vita þessi risastóri og hreinlega ósanngjarni munur hjá FIFA á verðlaunfé kynjanna á heimsmeistaramótunum. Þar er tekjulind sem bandaríska sambandið hefur engin áhrif á því FIFA stjórnar því algjörlega sjálft,“ sagði Parlow Cone.

„Eins og staðan er núna þá vill bandaríska kvennalandsliðið að sambandið borgi sér upp mismuninn bæði úr fortíðinni og í framtíðinni. Það eru meira en fimmtíu milljónir fyrir síðustu tvær heimsmeistarakeppnir og óþekkt upphæð í framtíðinni,“ sagði Parlow Cone.

Heimsmeistarar karlaliðs Frakka fengu 38 milljónir dollara fyrir sigur sinn í síðustu heimsmeistarakeppni en heildarverðlaunaféð á mótinu voru 400 milljónir dollara.

Heildarverðlaunféð á síðustu heimsmeistarakeppni hjá konum var aftur á móti bara 30 milljónir dollara þar af fóru fjórar milljónir dollara til heimsmeistara Bandaríkjanna.

Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur lofað að tvöfalda verðlaunaféð á HM kvenna árið 2023 en það myndi þá hækka upp í sextíu milljónir dollara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×