Innlent

Hætta að skima ból­usetta og börn um mánaða­mótin

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að hætt verði að skima bólusetta og börn við landamærin 1. júlí næstkomandi.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að hætt verði að skima bólusetta og börn við landamærin 1. júlí næstkomandi. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnarlæknis að halda óbreyttu fyrirkomulagi sóttvarnaraðgerða á landamærum til 1. júlí næstkomandi.

Frá og með 1. júlí verður verður slakað á aðgerðum. Hætt verður að skima þá sem framvísa vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum Covid-19. Þá verður einnig hætt að skima börn fyrir Covid-19 við komuna til landsins.

Þeir sem ekki geta framvísað vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu þurfa þó áfram að framvísa neikvæðum PCR-vottorðum og mega þau ekki vera eldri en 72 klukkustunda gömul. Þá þurfa þeir jafnframt að fara í tvær PCR-skimanir hér á landi með fimm daga sóttkví á milli. Stefnt er þó að því að endurskoða þetta fyrirkomulag um miðjan næsta mánuð.

Samkvæmt minnisblaði Þórólfs voru flest þau afbrigði veirunnar sem greindust á landamærunum frá 1. maí alfa-afbrigði veirunnar (breska). Nokkrir greindust smitaðir af delta-afbrigðinu (indverska) og beta-afbrigðinu (suðurafríska).

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×