Erlent

Maður greinist með sjaldgæft afbrigði fuglaflensu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Einstaklingar sem vinna á kjúklingabúum geta smitast af fuglaflensu.
Einstaklingar sem vinna á kjúklingabúum geta smitast af fuglaflensu. epa/M Sadiq

Fertugur kínverskur karlmaður hefur greinst með sjaldgæft afbrigði fuglaflensunnar svokölluðu, fyrstur manna. Engar upplýsingar liggja fyrir um það hvernig maðurinn smitaðist en afbrigðið, H10N3, er ekki talið smitast auðveldlega milli manna.

Maðurinn, sem býr í Jiangsu-héraði og greindist í síðustu viku, hefur náð sér og verður útskrifaður á næstunni. Hann var upphaflega lagður inn á spítala 28. apríl síðastliðinn.

Afbrigði fuglaflensunnar eru mörg og það gerist endrum og eins að fólk sem vinnur með fiðurfénað smitist. Að sögn kínverskra heilbrigðisyfirvalda virðist það hafa gerst í þessu tilviki. 

Þau sögðu hættuna á mikilli útbreiðslu afar litla  en engin önnur tilfelli fundust við smitrakningu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sagði í samtali við Reuters að ekkert benti til þess að umrætt afbrigði hefði smitast manna á milli.

Afbrigðið H5N8 er nú útbreitt víða í heiminum og í febrúar tilkynntu stjórnvöld í Rússlandi um fyrsta tilvikið þar sem það hefði greinst í manni. Fáir hafa greinst með fuglaflensu frá því að 300 létust af völdum afbrigðisins H7N9 árin 2016 og 2017.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×