Innlent

Mótettu­kórinn söng sinn hinsta söng við Hall­gríms­kirkju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hörður Áskelsson, stjórnandi Mótettukórsins, kveður Hallgrímskirkju.
Hörður Áskelsson, stjórnandi Mótettukórsins, kveður Hallgrímskirkju. Vísir/Egill

Mótettukórinn og stjórnandi hans kvöddu Hallgrímskirkju á táknrænan hátt eftir 39 ára starf í kvöld. Stjórnandinn, sem verið hefur kantor og organisti í kirkjunni, hætti störfum í dag vegna deilna vil sóknarnefnd kirkjunnar.

Bæði núverandi og fyrrverandi meðlimir Mótettukórsins komu saman fyrir utan kirkjuna í kvöld og sungu kveðju af mikilli innlifun.

„Ég hef það ótrúlega gott eftir þessa stund hérna. Að hitta lífsfélaga sína úr mörgum, mörgum árgöngum af Móteettukórnum var auðvitað alveg dásamlegt og dásamleg leið til þess að kveðja eftir 39 ára starf, nánast upp á dag,“ sagði Hörður Áskelsson, stjórnandi Mótettukórsins, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég er fullur af þakklæti og hamingju yfir þessari uppákomu hér.“

Hann segir viðskilnaðinn við sóknarnefnd kirkjunnar ekki hafa verið auðveldan.

„Nei, við gengum bara ekki í takt. Yfirmenn eða það fólk sem er nú við völd, ef svo má segja, þau vilja fara aðrar leiðir en ég, sem listrænn stjórnandi, og þar höfum við bara ekki náð saman. Því miður,“ segir Hörður.

Hann segir kórinn nú leita að húsnæði svo hann geti haldið störfum sínum áfram.

„En við erum komin í samband við ýmsa sem vilja taka á móti okkur og hjálpa okkur. Það er allt bjart yfir því,“ segir Hörður.

Snorri Sigurðsson, meðlimur í kórnum, segir blendnar tilfinningar fylgja því að segja skilið við Hallgrímskirkju.

„Maður á margar góðar minningar af frábærum stundum hér, kórsöng, en nú horfum við bara björtum augum fram á við og það er margt spennandi. Mótettukórinn heldur áfram,“ segir Snorri.


Tengdar fréttir

Tónskáld óttast „menningarslys“ í Hallgrímskirkju

Yfirstjórnendur Þjóðkirkjunnar eru hvattir til þess að grípa í taumana og forða „skelfilegu menningarslysi“ í tónlistarmálum Hallgrímskirkju í ályktun sem aðalfundur Tónskáldafélags Íslands samþykkti í gær. Deilur hafa geisað á milli sóknarnefndar Hallgrímskirkju og tónlistarstjóra hennar.

„Okkur er einfaldlega hent út með skít og skömm“

Mikil reiði ríkir meðal kórfélaga og velunnara Mótettukórsins vegna þess hvernig mál hafa þróast í Hallgrímskirkju sem endaði með starfslokum Harðar Áskelssonar tónlistarstjóra kirkjunnar til fjörutíu ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×