Sport

„Ef einhver rekst á hluta af rassinum mínum þá varð ég aðeins of kappsfull“

Sindri Sverrisson skrifar
Jessica Diggins fékk stærðarinnar brunasár við æfingar í Oregon.
Jessica Diggins fékk stærðarinnar brunasár við æfingar í Oregon. Instagram/@jessiediggins

Bandaríska skíðagöngukonan Jessie Diggins birti mynd af risastóru sári á annarri rasskinninni sem hún fékk við æfingar í Oregon þar sem hún undirbýr sig fyrir komandi ólympíuvetur.

Diggins átti góðu gengi að fagna á síðasta keppnistímabili og vann tvöfalt í heimsbikarnum í skíðagöngu. Kórónuveirufaraldurinn hafði reyndar mikil áhrif á tímabilið og varð til þess að Therese Johaug og aðrir norskir keppendur misstu af mótum.

Nú einblínir Diggins á Vetrarólympíuleikana sem hefjast í Peking 4. febrúar á næsta ári og undirbúningstímabilið er hafið. Það var við æfingar í Oregon í Bandaríkjunum sem hún rann til í snjónum og fékk ansi slæmt brunasár eins og sjá má.

„Ef að einhver rekst á hluta af rassinum mínum á brautinni þá varð ég sem sagt aðeins of kappsfull og hreyfði hann aðeins of hratt,“ sagði Diggins á Instagram.

Hún bætti því þó við að allt annað við það að vera mætt aftur í æfingabúðir með liðsfélögum sínum í bænum Bend væri stórkostlegt. „Það gerir mig svo glaða að vera aftur með þessum hvetjandi hópi,“ skrifaði Diggins.

Vetrarólympíuleikarnir í Peking fara fram dagana 4.-20. febrúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×